Þegar siðferðileg álitamál ber á góma innan líftækni, líffræði, lífvísinda, vistfræði og á fleiri sviðum, þá rignir spurningum. Og ef álitamálin hverfast um erfðarannsóknir og inngrip í grunnþætti lífsins, þá eru spurningarnar ávallt fleiri en svörin. Þegar við ræðum um áhrif manna á umhverfi sitt, þá verða jöfnurnar allar afar snúnar, sjónarhornin óteljandi og ólíkar niðurstöður blasa við.
Ef okkur langar endilega að halda á lofti skoðanaágreiningi, þá höfum við óteljandi leiðir. En ef okkur langar að leysa gátur, þá er allavega ein grunnhugmynd sem hægt er að byggja á: Við getum verið sammála um að vera ósammála. Við getum látið hagsmunaárekstrana lönd og leið og einblínt á lausnir, í stað þess að láta féþúfurnar velta hlassi farsældarinnar.
Hnattræn hlýnun
Ef við erum sammála 99% Íslendinga, þá erum við viss um að hnattræn hlýnun er staðreynd sem við náum ekki að flýja. Og ef flóttaleiðin er ekki fær, þá eru þrír kostir: að reyna að horfa framhjá vandanum, að sætta sig við hann eða reyna að koma í veg fyrir vöxt vandans. Allar leiðirnar virðast færar. En víst er það, að ef ekkert verður að gert, munum við neyðast til að taka afar afdrifaríkar ákvarðanir í náinni framtíð. Loftmengun, eyðing skóga og súrnandi úthöf munu koma okkur í koll. Þannig að leið fáfræðinnar getur vart talist fær. Ef við sættum okkur við vandann og treystum á reddingar, þá munum við einnig þurfa að grípa til ráðstafana sem munu bitna óþægilega á þorra mannkyns. Og þá er leið skynseminnar ein eftir, leiðin sem í fyrstu virðist vera sú erfiðasta; að takast á við vandann, bretta upp ermar og spyrja: „Hvað getum við gert?“
Áróður
Hér verð ég að geta þess, að í Bandaríkjunum og víðar um okkar ágæta heim, eru reknar öflugar áróðursmaskínur sem hafa það sem sitt eina markmið að koma í veg fyrir samdrátt. En það er gert með því að auka fáfræði fólks. Áróðurinn snýst um að koma fram þeirri skoðun sem segir að hnattræn hlýnun sé í raun og veru ekki af mannavöldum. Og af þeirri ástæðu sé hægt að segja að vísindamenn séu á villigötum, þegar þeir halda því fram að vá sé fyrir dyrum.
Nú ætla ég ekki að leyfa mér þann munað að telja þetta heimskulegar skoðanir. Áróðursmaskínan eyðir milljörðum Bandaríkjadala í að verja málstað markaðarins sem vernda þarf eigin hag. En ég vil þó benda á að með því að gefa sér tylliástæðu og með því að reyna að koma sökinni á náttúruna, eru menn að ráðast að rót skynseminnar. Ef vandinn er til staðar, þá þarf að glíma við hann.
Þrjár spurningar
Skoðanaágreiningurinn er augljós og honum verður hvorki eytt með peningum né pennastrikum. Honum verður einungis eytt með samkomulagi. Samkomulagið það arna er skapað af skynsemi, því skynsemin leyfir okkur að ákveða umræðurammann. Það fyrsta sem við þurfum að gera er að skoða hvað við þurfum ekki að ræða. Þá sjáum við þrjár spurningar sem stöðugt er klifað á, en þær eru í raun og veru allar þess eðlis að þeim þarf ekki að svara.
Fyrsta spurningin er: „Hverju eða hverjum er hnattræn hlýnun um að kenna?“ Um leið og við reynum að svara fyrstu spurningunni, eyðum við möguleikum okkar á að komast að „réttu svari“. Svörin eru háð forsendum. Svörin eru háð skoðunum og svörin geta verið háð hverju sem er. Sumir ganga svo langt að segja að svörin geti verið háð andúð á vísindum, andúð á markaðshagkerfum eða trú á að eitthvað sé til sem kallast vísindalegar sannanir. Þessi fyrsta spurning er ekkert annað en fyrirsláttur. Hún hindrar okkur, hún er dragbíturinn sem leyfir okkur ekki að opna gáttir frjálsrar hugsunar. Ef við sleppum þessu þrætuepli, getum við einblínt á lausnir.
Önnur spurningin er: „Hvað eru aðrir að gera varðandi vandann?“ Með því að setja það sem skilyrði fyrir framkvæmd, að aðrir séu einnig að gera eitthvað, firrum við okkur ábyrgð. Við getum fallið í þá gryfju að neita að framkvæma, á grundvelli þess að okkar verk séu vart mælanleg í hinu stóra samhengi, einkum ef tekið er tillit til þess að jafnvel hinir mestu umhverfissóðar gera akkúrat ekkert.
Ef allir sem í London eru eyða hver fyrir sig fimm mínútum í að taka til í kringum sig, þá verður borgin öll hrein.
Hér þykir mér við hæfi að nefna einfalda aðferðafræði sem Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki, gaukaði að mér. En það er vangavelta um það hvernig hægt sé að hreinsa London á fimm mínútum. Og þetta á við um borgina þegar þar er sóðaskapurinn hve mestur. Svarið er afar einfalt: Ef allir sem í London eru eyða hver fyrir sig fimm mínútum í að taka til í kringum sig, þá verður borgin öll hrein.
Ef við leggjum okkur fram, þá er aldrei að vita nema okkur takist að verða fyrirmyndir, að okkur takist að sýna fordæmi sem öðrum þykir álitlegt að fylgja.
Þriðja spurningin er: „Er þetta ekki orðið of seint?“ Ef við játum okkur sigruð og teljum að of seint sé að snúa vörn í sókn, þá eru vangaveltur okkar einskis nýtar. Ef uppgjöf er eina lausnin, þá munum við á einum tímapunkti neyðast til meiri þrenginga en okkur kann að óra fyrir. Við sleppum því að svara spurningunni, á grundvelli þess að hún hefur ekki vægi fyrir framvinduna. Ef við viðurkennum vandann, þá viðurkennum við að við þurfum að leita lausna.
Þverfaglegt rannsóknarsvið
Aðsteðjandi vandi snýst ekki um eitthvert eitt vísindalegt módel sem snertir einvörðungu samspil þekkingar og yfirráða; vangaveltur um siðferðisvanda sem til er vegna þess að hegðun náttúrunnar er að breytast. Þetta snýst um það að heildarhagsmunum einstaklinga og samfélaga er ógnað. Skerðing réttinda er í sjónmáli, valfrelsi mun breytast í neyð. Velferð og farsæld er í húfi. Hagsmunir tegundarinnar eru lagðir að veði. Maðurinn verður að leita leiða til að koma í veg fyrir að hagsmunir lífríkisins bíði hnekki og glatist. Hér er allt líf á Jörðinni í brennidepli og þeir sem rannsaka og gefa álit, koma úr öllum áttum.
Þegar himinn og haf er á milli skoðana manna, er ein lausnin öðrum betri: að sættast á að vera sammála um að vera ósammála. Þannig getum við komist hjá því að svara spurningum sem eru fótakefli í baráttunni við vandann sem ógnar okkur öllum.
Athugasemdir