Myndskeið sem sýndi árás unglinga á jafnaldra sinn, fimmtán ára gamlan dreng í Reykjavík, þar sem hann var einnig niðurlægður, var dreift á svokölluðum slagsmálasíðum á Instagram. Móðir drengsins hvetur foreldra til að fylgjast með þeim hópum sem börnin þeirra eru í á samfélagsmiðlum; einelti og ofbeldi fari að miklu leyti fram á netinu. Hún segir að á síðum sem þessum sé hægt að senda beiðni um að börn séu barin og svo séu birt myndbönd af því að verknaðinum loknum.
„Strákar í hverfinu réðust á hann og skipuðu honum að kyssa á skóna þeirra. Hann gerði það, þeir tóku það upp á símana sína og dreifðu því út um allt. Þeir sögðust vera að refsa honum fyrir að hafa áreitt stelpu, sem hann hafði aldrei hitt, á kynferðislegan hátt.“
Þannig hófst margra mánaða martröð fjölskyldu í Reykjavík. Móðirin, sem ekki vill láta nafns síns getið af tillitsemi við son sinn segir að eitt gott hafi komið út úr þessari lífsreynslu; fjölskyldan hafi orðið nánari.
Hótað lífláti og barsmíðum
Í kjölfarið tóku við hótanir á samfélagsmiðlum, þar sem drengnum var hótað ýmis konar ofbeldi. Barsmíðar á honum voru boðaðar á slagsmálasíðum og -hópum á netinu. Hótanirnar voru ýmist frá unglingum sem hann þekkti eða þekkti ekki neitt, þær komu alls staðar að af höfuðborgarsvæðinu og víðar af landinu og honum var hótað lífláti ef hann stigi fæti sínum í tiltekin hverfi.
Móðirin vissi hverjir stóðu að baki áreitinu og taldi í byrjun að það myndi bera bestan árangur ef hún myndi ræða þetta í rólegheitum við foreldra helsta forsprakkans. „Hann lofaði öllu fögru, en safnaði síðan liði vina sinna úr öðrum hverfum og þeir biðu sonar míns fyrir utan skólann.“
Foreldrarnir létu drenginn hætta á öllum samfélagsmiðlum í von um að hótanirnar myndu þá ekki ná til hans. Þá hófust símhringingar dag og nótt bæði í síma foreldranna og í heimilissímann þar sem fjölskyldunni var hótað. „Hann fór ekkert einn út nema í skólann og heim aftur. Ég fór stundum með hann út í búð og þar varð hann fyrir aðkasti og hótunum og það sama gerðist í Kringlunni og Smáralind. Við gátum ekkert farið.“
Fór ekki út úr húsi en var sagður hafa áreitt stúlkur
„Síðan fóru að bætast við fleiri stelpur víða að af landinu sem hann átti að hafa áreitt og það átti að hafa gerst á þeim tíma þegar hann fór ekkert út af heimilinu. Hann þekkti fæstar þeirra og ég held að á endanum hafi þær verið orðnar 15,“ segir móðirin. Hún segir að hún hafi hvatt stúlkurnar til að leita til lögreglunnar með ásakanir sínar. „Tvær þeirra gerðu það. Málið var rannsakað og síðan fellt niður, meðal annars vegna þess að ásakanirnar breyttust sífellt, þær urðu vægari og vægari.“
Foreldrarnir gerðu aðra tilraun til að ræða við foreldra gerendanna. „Viðbrögð sumra voru að þetta væri ímyndun í okkur; börnin þeirra hefðu ekki gert neitt. Við sýndum þeim skilaboð sem börnin þeirra höfðu sent syni okkar, en það breytti engu. Aðrir sögðu að þeir réðu bara ekkert við börnin sín og að við yrðum bara að láta þetta yfir okkur ganga. Við höfðum þá samband við lögregluna. Fyrstu viðbrögðin voru að þetta væri mjög alvarlegt mál og að það yrði brugðist við. En eftir því sem við höfðum oftar samband og sendum fleiri skilaboð og skjáskot urðu viðbrögðin minni og minni. Ég veit reyndar að lögregla talaði við einn af gerendunum sem sagðist ætla að hætta þessu, en stóð ekki við það.“
Bara pjakkar með stæla
Foreldrarnir leituðu til barnaverndarnefndar, en fengu þar þau svör að málið væri ekki nægilega alvarlegt til þess að grípa þyrfti inn í. „Þetta eru bara pjakkar með stæla, voru svörin sem við fengum.“
„Viðbrögð sumra voru að þetta væri ímyndun í okkur. Við sýndum þeim skilaboð sem börnin þeirra höfðu sent syni okkar, það breytti engu“
Móðirin segir að starfsmenn skóla drengsins hafi framan af ekki lagt trúnað á sögu foreldranna þrátt fyrir að þeir hafi sýnt þeim mörg ljót skilaboð sem hann fékk frá skólafélögum sínum. „Það var ekki fyrr en allir krakkarnir í hans árgangi fóru á tæknihátíð niðri í bæ, sem nemendur úr fleiri skólum fóru líka á, að kennararnir sáu með eigin augum hvað var í gangi. Þar höfðu krakkar stillt sér upp við alla útganga úr húsinu til að ná honum þegar hann kæmi út og berja hann. Þetta hafði verið auglýst á ofbeldissíðum á Instagram.“
Í kjölfar þessa ákvað skólastjórinn að tilkynna málið til viðkomandi barnaverndarnefndar og þar fékk drengurinn nokkra sérfræðiaðstoð. En lítið var gert til að stöðva hegðun þeirra sem ofsóttu hann. „Ég veit til þess að skólinn ræddi einu sinni við foreldra gerendanna, en það bar engan árangur. Ég veit ekki til þess að meira hafi verið reynt,“ segir móðirin.
„Þar höfðu krakkar stillt sér upp við alla útganga úr húsinu til að ná honum þegar hann kæmi út og berja hann“
Að sögn móðurinnar óttaðist fjölskyldan verulega um hag sinn meðan á þessu stóð. Myndir voru teknar af Facebook-síðum foreldranna sem sýndu þau og yngri systkini drengsins og þeim var dreift á samfélagsmiðlum með áskorunum um að gera þeim mein. Hópur unglinga í Hafnarfirði réðst á eldri bróður hans með hnífum í Hafnarfirði og eitt skipti fengu þau tilkynningu um að þau ættu von á heimsókn þekkts handrukkara.
Við hefðum viljað vera tekin alvarlega
Spurð hvaða viðbrögð hún hefði viljað fá frá skólanum, lögreglu og barnaverndaryfirvöldum svarar móðirin: „Að við hefðum verið tekin alvarlega. Allir vísuðu hver á annan eða sögðu að þetta væri ekki alvarlegt. Við leituðum líka til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, þar sem gerendurnir voru úr mörgum skólum. Skólastjórar þessara skóla voru ekki tilbúnir til að vinna saman til að leita lausna á málinu, en fulltrúi skóla- og frístundasviðs fór í skólana og ræddi við þá.“
Smám saman fjaraði áreitið út og eftir um sex mánuði var drengurinn að mestu óáreittur. Spurð hvernig honum líði í dag segir móðirin að hann hafi alla tíð getað haldið í þá hugsun að hann ætti ekki skilið að líða slíka framkomu. „Ég er stolt af honum fyrir að hafa getað gengið í gegnum þetta og að hafa borið höfuðið hátt allan tímann.“
Segir ofbeldisgengi fara á milli skóla
Móðirin segir fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af því ofbeldi sem þrífst meðal unglinga. „Ég fékk sjokk þegar ég sá í fréttum núna í vikunni þar sem verið var að misþyrma unglingsdreng. Ég hef heyrt um svo mörg svona tilvik þar sem verið er að taka upp ofbeldi barna gegn börnum og að það sé verið að dreifa þessu efni og auglýsa slagsmál og árásir á samfélagsmiðlum. Ég veit að margoft var hvatt til að ráðast á son minn á slíkum síðum, ef hann hefði ekki alltaf verið heima þá hefði hann líklega orðið fyrir gríðarlegu ofbeldi. Ég veit til þess að gengi fara á milli skóla til að berja krakka þar, en passa sig á því að gera það ekki í sínum eigin skóla því. Þannig sleppa þau við afleiðingarnar.“
Hún segir ábyrgðina vera foreldranna. „Ég hvet foreldra til að taka ábyrgð á börnunum sínum og fylgjast með þeim hópum sem þau eru í á samfélagsmiðlum. Og að taka það alvarlega þegar aðrir foreldrar koma að málli við þig og segja þér að barnið þitt komi illa fram. Ef þú átt 15 ára gamalt barn, sem er að eyðileggja líf annars barns, þá biður þú um aðstoð. Það er skylda þín sem foreldris.“
Athugasemdir