Næsta víst er að félagsmenn í Sjúkraliðafélagi Íslands muni samþykkja verkfallsboðun. Þetta segir Gunnar Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri félagsins, en kosning um boðun verkfalls stendur nú yfir. Hún hófst í gær og lýkur á morgun og þátttaka er komin yfir það lágmarksviðmið sem þarf til að hún teljist gild. Samningar hafa verið lausir í tæpa 10 mánuði og fólk er orðið „pirrað“, að sögn Gunnars.
Kosið er um verkfallsaðgerðir hjá þeim sjúkraliðum sem starfa hjá ríkinu og Akureyrarbæ. Kosningaþáttaka er nú komin yfir 55% hjá þeim sem starfa hjá ríkinu og yfir 58% hjá sjúkraliðum hjá Akureyrarbæ og Gunnar segir að góð þátttaka komi sér ekki á óvart því hann hafi merkt mikla ólgu og vilja til aðgerða hjá félagsmönnum. Kosning um verkfall hjá aðildarfélögum BSRB stendur einnig yfir og Gunnar segir að fari svo að verkfallsaðgerðir verði samþykktar hjá báðum félögum sé líklegt að starfsemi Landspítalans lamist, en hluti starfsfólks á Landspítalanum er í aðildarfélögum BSRB.
Ekki bundin af Lífskjarasamningnum
Spurður í hverju kröfur sjúkraliða felist segir Gunnar að krafist verði 120 þúsund króna launahækkunnar á mánuði. Þá snúist kröfurnar meðal annars um styttingu vinnuvikunnar. „Að dagvinnufólk vinni 36 tíma á viku og ákveðinn hluti vaktavinnufólks fari niður í 32 tíma,“ segir hann. „Árið 2015 gáfum við frá okkur tiltekin lífeyrisréttindi á grundvelli þess að laun yrðu jöfnuð á milli almenna markaðarins og hins opinbera. Það hefur enn ekki verið gert. Síðan var sett svokölluð launaskriðstrygging - við höfum enn ekki séð hana. Og við teljum okkur ekki á neinn hátt bundin af Lífskjarasamningnum, enda áttum við enga aðkomu að gerð hans.“
Frá BSRB fengust þær upplýsingar að atkvæðagreiðsla færi vel af stað. Að henni standa 17 aðildarfélög, ýmist er kosið rafrænt eða skriflega og heildartölur um þátttöku liggja fyrir á fimmtudaginn.
Athugasemdir