Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentustigum í nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna. Mælist flokkurinn með 16,8 prósenta fylgi og yrði næst stærsti flokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem áður stærstur með 20,3 prósenta fylgi, nær óbreytt frá síðustu mælingu.
Fylgi Miðflokksins dalar hins vegar og mælist 12,9 prósent. Mældist flokkurinn með 14,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi flokkanna sem á eftir koma er mjög jafnt. Vinstrihreyfingin grænt framboð mælist með 11,1 prósent, örlitlu meir en í síðustu könnun. Píratar mælast með 11 prósenta fylgi og dala lítillega frá síðustu könnun. Þá er fylgi Viðreisnar 10,5 prósent og fylgi Framsóknarflokksins 8,2 prósent.
Loks mælist Sósíalistaflokkur Íslands með 4,1 prósent og Flokkur fólksins með 3,5 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 41,2 prósent, samanborið við 39 prósent í síðustu könnun.
Athugasemdir