Grái herinn hefur loksins komið því af stað sem hefur tekið mörg ár að koma í gang: Að stefna ríkisstjórninni fyrir að skerða lífeyrisréttindi ellilífeyrisþegna.
Loksins gyllir í einhverja von um að það takist.
Að hugsa sér að í lýðræðisríki þar sem forysta ríkisstjórnar hreykir sér af dugnaði sínum í mannréttindamálum skuli veikustu þegnar þessa lands þurfa að sækja rétt sinn til dómstóla landsins og væntanlega út fyrir landssteinana til Mannréttindadómstólsins.
Að hugsa sér að þeir þegnar þjóðfélagsins sem sækja nú þennan rétt sinn, sé sú sama stétt sem kom fótunum svo þægilega undir þau sem nú sitja í ríkisstjórn. Skiptir ekki máli hvaða ríkisstjórn á undan þeim gerði hvað þau gerðu, skiptir ekki máli hver setti skerðingar á á sínum tíma, það sem skiptir máli er að þvert geng loforðum þessara pólitíkusa sem nú sitja í ríkisstjórn voru skerðingar ekki afnumdar. En þau hrósa sér samt fyrir að koma á betri mannréttindum í þessu landi. „Eru Álfar kannski menn“ er spurt í ljóðinu, svo ég spyr: „Eru eldri borgarar ekki menn?“
Hækkanir launa á síðustu árum hafa aldrei náð til ellilífeyrisþega.
Hækkanir launa á síðustu árum hafa aldrei náð til ellilífeyrisþega. Skattheimtan hefur verið meiri ef eitthvað er. Eldri borgarar geta ekki lengur geymt sparifé sitt á sparireikningum þar sem vextirnir, hvað lágir sem þeir eru, eru reiknaðir frá ellilaununum alveg uppá krónu. Hafi ársvextir af innstæðu numið 22.000 krónur eru dregnar sirka 2.000 krónur mánaðarlega af ellilífeyrinum þar til upphæðinni er náð. Nú er allt fé sett undir rúmdýnuna því eldri borgari má ekkert eiga án þess að vera refsað fyrir það með skerðingum af því litla sem ríkið skammtar. Bankarnir vilja sjálfsagt ávaxta fé eldriborgara svo þetta er ákaflega vitlaus aðgerð af hálfu stjórnvalda og þjóðinni ekki í hag.
Við eldri borgarar þessa lands kölluðum ekki allt „Ömmu okkar“ eins sagt var í gamladaga. Nei, það sem gera þurfti var gert og ekki var hugsað um að hendurnar þyrftu að vera hanskaklæddar og ekki eyrum hulin bak við hlífar og ekki var hugsað um svefnþörf barnanna sem þar unnu þegar vinna í fiskiðjuverum landsins var keyrð fram yfir miðnætti. „Það þarf að bjarga verðmætum,“ þetta var okkur sagt og við vildum svo sannarlega bjarga verðmætum og hag okkar ástkæra lands.
En slíkt er þakklæti þeirra kynslóðar sem nú situr við völd í þessu lýðræðisríki í dag að aldraðir þurfa að leita réttar síns með málsókn á hendur þeirra sem sóa fénu í allt önnur verkefni en þau sem við vorum að bjarga „verðmætum“ fyrir í gamla daga, til dæmis fyrir heilbrigðiskerfi sem virkaði fyrir alla, fyrir skólakerfi sem þjónaði öllum og fyrir betra líf að lokinni starfsævi með því að stofna sjóð sem nú er af okkur tekin. Og þá erum við komin að kjarna málsins og málaferlunum sem loksins eru komið af stað og skal höfðað gegn þessari ríkisstjórn til endurheimtunar þeim peningum sem stolið hefur verið frá ellilífeyrisþegnum með skerðingum á ellilífeyri, sem gert var með því að breyta þeim lögum sem eldri kynslóð og stofnendur setti í upphafi er sá sjóður var stofnaður. Við sem erum fórnarlömb þessara skerðinga munum eflaust ekki fá okkar skaða bættan með þessu málaferlum en við erum ennþá að búa í haginn fyrir þau sem á eftir koma og eiga vonandi betri ævikvöld en við. Þó ekki hugsi unga fólkið mikið um hvað þetta þýðir fyrir þau núna þá skilja þau það vonandi síðar meir, því öll verðum við gömul á endanum.
Í þessari ríkisstjórn er vissulega gamalt fólk í dag en þeirra hagur er tryggður svo því skildu þeir vera að taka þátt í baráttu sinnar kynslóðar er þeir líta fram á ánægjulegt ævikvöld sjálfum sér til handa. Ég verð þó að hrósa þeim fáu sem reyna að hefja rödd sína til handa okkur eldriborgurum en hún kafnar í glaumi þeirra sem ráða.
Það er svo leiðinleg klisja að telja upp loforð pólitíkusanna er þeir eru að reyna að koma sér í stólana en ég má til að bregða upp loforðum Bjarna Benediktssonar er hann sendi út bréf til allra eldri borgara fyrir kosningarnar 2013. Þar segir hann meðal annars:
Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð þá muni hann:
„Hlúa að öldruðum en ekki íþyngja þeim.
Afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega sem komið var á 2009
Afnema eignarskattinn og lækka fjármagnstekjuskattinn
og (síðast en ekki síst) afnema tekjutengingar ellilífeyris“.
Við vitum öll um efndirnar enda erum við löngu hætt að trúa á það lið sem sækir svo hart í að komast í stólana sér einum til heilla. Við þurfum nýtt fólk, heiðarlegt fólk sem stendur við orð sín og breytir eftir þeim. Fólk sem setur peninga þjóðarinnar í heilbrigðismál og allan þá innviði sem búið er að eyðileggja og fjársvelta. Fólk sem þarf ekki nýja ráðherrabíla og ný lög til að vermda eigin hagsmuni um kjör og bónusa sér til handa. Hættum að kjósa þetta lið við erum þau sem í raun stjórnum því hver situr í þessum stólum.
Styrkjum Grá Herinn í baráttunni við ríkið og látum hvað lítið sem er inn á reikninginn sem stofnaður hefur verið til fjárstuðnings þessu máli. Ég veit um marga eldri borgara sem beðið hafa eftir því að geta lagt þessu máli lið og það hjálpar öllum ellilífeyrisþegum.
Málsóknarsjóður Grá Hersins:
kt. 691119-0840 reikn: 0515-26-007337
Kær kveðja, Margrét S Sölvadóttir
Athugasemdir