Lögmaður og lektor er grunaður um að hafa frelsissvipt og nauðgað ungri konu á heimili sínu sólarhringum saman í desember síðastliðnum, en áhyggjur vöknuðu meðal ástvina hennar þegar ekkert hafði spurst til hennar í marga daga. Þrátt fyrir að sími horfnu konunnar hefði verið rakinn til heimilis lektorsins með GPS tækni og að rökstuddur grunur lægi fyrir um að fíkniefni væri að finna innandyra taldi lögregla ekki ástæðu til að fara þangað inn með valdi. Sólarhring síðar ráfaði konan út úr húsinu í annarlegu ástandi, hneig niður og endurtók í sífellu: „Hann var að sprauta mig.“
Eftir að búið var að færa konuna til aðhlynningar á spítala var lektorinn loks færður til yfirheyrslu vegna gruns um alvarleg brot gegn ungu konunni. Hann var þó ekki hnepptur í gæsluvarðhald, fór heim til sín og nýtti frelsi sitt með þeim hætti að sólarhring síðar voru tvær konur til viðbótar búnar að kæra hann fyrir ný kynferðisbrot. Réttargæslumaður annarrar konunnar gagnrýndi hvernig staðið hefði verið að máli lektorsins og sagði: „Ef hann hefði strax verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem að mínu mati var fullt tilefni til, þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta.“
Réðst á tvær unglingsstúlkur með viku millibili
Settar hafa verið fram kenningar um að umræddur lektor hafi fengið sérmeðferð vegna stöðu sinnar í samfélaginu og að ótíndur pöpullinn hefði sætt harðari framgöngu. Sagan býr þó yfir mörgum dæmum um að menn, sem grunaðir eru um gróft ofbeldi gegn konum, hafi fengið tækifæri til að halda uppteknum hætti án þess að njóta sérstakrar virðingar í samfélaginu.
„Þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta“
Árið 2016 var ungur maður dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga tveimur fimmtán ára stúlkum með viku millibili. Lýsingar fyrri stúlkunnar sem hann réðst á vöktu óhug en hún sagði að maðurinn hefði tekið sig kverkataki, sparkað í sig og slegið, stigið ofan á háls sér, hótað sér lífláti og nauðgað sér í tvígang. Þrátt fyrir þetta var hann ekki hnepptur í gæsluvarðhald. Seinni stúlkan sem hann nauðgaði lýsti því hvernig hann gekk í skrokk á henni og tók hana kverkataki með þeim afleiðingum að hún hélt að hún myndi deyja. Hún brast í grát en að hennar sögn sagði ofbeldismaðurinn þá að grátur hennar „gerði hann bara graðari“. Ári síðar var fangavist hans lokið og DV birti fréttir um að hann væri á rúntinum í Reykjavík.
„Meinlausi“ kjötaxarnauðgarinn
Mál unga mannsins minnir um margt á kjötaxarmanninn svokallaða, sem hlaut í tvígang fimm ára dóma fyrir nauðgun þann 11. október 2006 og 19. júní 2007. Brotaþolinn í seinna málinu var þakinn stórum marblettum um allan líkamann auk lína og rispa eftir kjötexi og búrhníf sem maðurinn misþyrmdi henni með. Þegar hann greip til axarinnar var nú þegar búið að dæma hann sekan í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfelldar líkamsárásir á tvær konur og hrottalega nauðgun á annarri þeirra. Þriðju konunni hefði mátt bjarga ef maðurinn hefði setið í gæsluvarðhaldi. Ekki nóg með að maðurinn var frjáls ferða sinna, heldur var einni þeirra kvenna sem kærðu hann synjað um nálgunarbann. Maðurinn var sem sagt hvorki talinn hættulegur samfélaginu né þeim sem hann gekk í skrokk á.
Hótunin leiddi til 28 hnífstungna
Þann 6. mars árið 2000 kærði stúlka nokkur fyrrum sambýlismann sinn fyrir nauðgun. Í dómnum segir frá því hvernig sakborningurinn montaði sig af því að hafa nauðgað kærustu sinni og tekið verknaðinn upp á myndband, sem lögregla lagði hald á samdægurs. Í dómi segir að „efni myndbandsins samræmdist vitnisburði brotaþolans við rannsókn og meðferð málsins, en hún bar að ákærði hefði þröngvað henni til kynferðismakanna og tekið þau upp á myndband til að geta notað gegn henni síðar“. Þó var ofbeldismaðurinn ekki hnepptur í gæsluvarðhald, jafnvel þótt tvö vitni segðu í skýrslutökum lögreglu frá því að sakborningurinn hefði hótað að drepa vinkonu brotaþolans, sem var eitt af lykilvitnum málsins. Ofbeldismaðurinn lét verða af hótun sinni þremur vikum síðar þegar hann braust inn til vinkonunnar og myrti hana með 28 hnífstungum. Hér er á ferðinni annað dæmi um konu sem hefði verið bjargað ef maður, sem lá undir grun um nauðgun (sem áðurnefnt myndband svo gott sem staðfesti), hefði verið hnepptur í gæsluvarðhald.
Hættum að tala um stöðu ofbeldismanna
Kannski er kominn tími á að hætta að velta fyrir sér hvort munur sé á nauðgaranum Jóni og nauðgaranum séra Jóni. Enginn áðurnefndra manna, hvorki sá sem réðst á unglingsstúlkurnar tvær, kjötaxarmaðurinn né morðinginn gegndu virðingarstöðum í samfélaginu. Þeir höfðu ekki verið titlaðir sérfræðingar í fjölmiðlaviðtölum, ekki kennt við Háskóla Íslands né gegnt ábyrgðarstöðum í fjármálastofnunum. Þeir eru einfaldlega dæmi um karla (og alls ekki tæmandi listi) sem fá tækifæri til að eyðileggja fleiri líf eftir að grunur – eða jafnvel staðfesting – fæst á kvenhatri þeirra og hrottaskap. Kannski er því kominn tími til að hætta vangaveltum um hvort staða tiltekinna karla geri þeim kleift að beita ítrekuðu ofbeldi og beina sjónum okkar fremur að því hvort svarið felist í almennri stöðu kvenna í samfélaginu. Kannski felst kjarni málsins ekki í virðingunni sem tilteknir karlar njóta, heldur fremur í virðingarleysinu fyrir lífi og limum kvenna. Þegar upp er staðið borga þær nefnilega brúsann. Hin raunverulega spurning sem við ættum öll að spyrja okkur er hvort það sé ásættanlegur fórnarkostnaður.
Athugasemdir