Í gær, á annan í jólum, fæddist á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík lítil stúlka. Hún er fyrsta barns ungs pars frá Afganistan, átján ára konu og nítján ára manns. Parið fékk fyrr í þessum mánuði þær fréttir að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi verði ekki tekin til skoðunar, á þeim grundvelli að þau hafi þegar alþjóðlega vernd í Grikklandi. Þau bíða þess því að verða flutt þangað aftur. Barnið og foreldrarnir ungu dvelja nú í Reykjanesbæ, í húsnæði fyrir hælisleitendur.
Kvikmyndagerðarkonan Elísabet Ronaldsdóttir hefur, ásamt fleirum, staðið fyrir söfnun á ýmsum nauðsynjum fyrir barnið. Margir hafa brugðust við kallinu og boðið ýmislegt fram, svo sem eins og bílstól, föt og fleira.
Guðríður Lára Þrastardóttir, talsmaður umsækjenda hjá Rauða krossi Íslands, vakti athygli á stöðu fólksins í grein sem birtist á Vísi á dögunum. Þar kom meðal annars fram að í haust hafi nokkrir einstaklingar, þar á meðal parið, fengið niðurstöðu frá Kærunefnd útlendingamála um endursendingu til Grikklands. Hún bendir á að Rauði krossinn hafi í sumar skorað á íslensk stjórnvöld að láta tafarlaust af endursendingum til Grikklands vegna þess alvarlega ástands sem þar ríkir. Heimilisleysi, sárafátækt, atvinnuleysi og fordómar séu algeng vandamál meðal flóttafólks þar.
Segir Guðríður að talsmenn Rauða krossins hafi ekki orðið varir við að fjölskyldum og einstaklingum í viðkvæmri stöðu sé sýnd mildi eða mannúð, við mat á því hvort heimilt sé að senda þau til Grikklands. Margt bendi raunar til þess að íslensk stjórnvöld geri nú strangari kröfur en áður.
Athugasemdir