Drengurinn sem leitað er í Sölvadal í Eyjafirði, eftir að hann féll í Núpá í gærkvöldi, mun hafa verið gestkomandi hjá bónda á bæ í dalnum og farið með honum til að aðstoða við að koma rafmagni á. Hans er enn saknað. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er drengurinn sextán ára gamall. Munu drengurinn og bóndinn hafa staðið uppi á stífluvegg, þar sem þeir voru að vinna við að hreinsa krapa frá inntaki inn í stífluna, þegar að krapabylgja kom niður ánna og hreif drenginn með sér. Bóndinn náði að forða sér undan. Erfiðar aðstæður eru til leitar, þar eð Núpáin fellur í kröppu gili í um það bil tvo til þrjá kílómetra neðan við stífluna. Heimamenn í sveitinni eru mjög slegnir vegna slyssins.
Hentu öllu frá sér
Hjalti Þórsson vinnur við snjóruðning og var hann fenginn til að ryðja veginn inn Eyjafjörð og inn Sölvadalinn. Hann segir að ekki hafi verið erfitt að ryðja leiðina svo að vel væri en aðstæður til leitar við ánna sé erfiðar. „Hún rennur þarna í þrengslum í tvo til þrjá kílómetra neðan við stífluna, sem er illmögulegt að komast um gangandi. Svo eru þarna krapabakkar í hliðunum eftir krapaflóðið sem tók manninn þannig að það er eiginlega varla nokkurs staðar pláss fyrir mannskap til að ganga nema í ánni. Það er mjög erfitt að athafna sig og komast að þessu. Landið meðfram gilinu er mikið sundurskorið af lækjum og það hallar mikið að því þannig að það er erfitt yfirferðar. Það er líka svell undir snjó þarna og skreipt.“
„Við hentum öllu frá okkur“
Hlynur Þórsson á Akri er félagi í björgunarsveitinni Dalbjörgu og var við leit í nótt. „Ég var niðri á Akureyri í gærkvöldi og við vorum þar komnir með rafstöðvar á bíl og vorum á leið inn í Svarfaðardal til að koma fjósum í gang þar í rafmagnsleysinu. Við hentum öllu frá okkur þegar útkallið kom og fórum inn eftir inn í dal til leitar.“ Öllum tiltækum mannskap sem var í nágrenninu var þegar beint inn í Sölvadal til leitar.
Klettagil og hrunhætta
Hlynur var við leit til klukkan þrjú í nótt en aðrir héldu áfram við leit. Éljagangur var á en gola hæg og ekki mikill snjór. „Þetta er klettagil og bara sum staðar sem hægt er að ganga meðfram ánni. Að vestanverðu eru hengjur svo það var hrunhætta og það þarf að fara mjög varlega á köflum.“ Félagar í björgunarsveitinni Dalbjörgu eru vel kunnugir á svæðinu og auðveldar það skipulag aðgerða talsvert en leitarsvæðið er þó talsvert og leitótt í því.
Aðeins einn bær er í byggð í Sölvadal. Hann, sem og aðrir bæir í dalnum, hafa aldrei verið tengdir við rafveitu Landsnets en heimarafstöðvar voru settar upp í dalnum. Þekkt er að í vondum veðrum hafa inntaksrör þeirra oft stíflast af krapa og erfitt er og hættulegt að hreinsa frá þeim. Þá er þekkt að í Núpánni myndast snjóstíflur í mikilli úrkomu, sem bresta svo og berast niður ánna.
Heimamenn sem Stundin hefur rætt við í morgun eru mjög slegnir yfir slysinu. Mjög margir þeirra eru á vettvangi við leit eða hafa verið það.
Kafarar fluttir norður
Á fimmta tug manns voru við leit í nótt á svæðinu og kom tíu manna hópur, sérstaklega sérhæfður í straumvatnsbjörgun, að sunnan undir morgun. Kafarar frá slökkviliðinu á Höfuðborgarsvæðinu og kafarar úr sérsveit Ríkislögreglustjóra voru þá fluttir norður í gærkvöldi með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Alls voru fjórir kafarar, lögreglumaður og tíu sérhæfðir björgunarsveitarmenn fluttir norður í Sölvadal með þyrlu Landhelgisgæslunnar í nótt. Þyrlan lenti við Saurbæjarkirkju laust eftir klukkan eitt í nótt þar sem kafararnir fóru frá borði, en þyrlan var á svæðinu til 4:30 þegar skyggni tók að versna. Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar flutti tíu björgunarsveitamenn til viðbótar norður og lenti á Akureyrarflugvelli á fimmta tímanum. Meiri mannskapur mun vera á leiðinni norður til leitar.
Athugasemdir