Björgvin Páll Gústavsson veltir því fyrir sér af hverju við þurfum að verða fyrir stóráföllum til að læra að meta hversdagsleikann. Hann mælir með því að við hættum að leita hamingjunnar og förum að njóta lífsins. Af því að við getum gert nákvæmlega það sem við viljum, jafnvel þótt við áttum okkur ekki alltaf á því.
Fyrir mér liggur hamingjan í hversdagsleikanum og í augnablikum þar sem maður er ekki að leita að hamingjunni. Hamingjan er þegar maður áttar sig á því að að líða venjulega er stórkostlegt. Flestir geta tengt það við það að vera veikir, með þétta flensu og líða svo aftur venjulega og átta sig á því hvað þeim líður vel, við það eitt að líða ekki illa.
Vandamálið við hamingjuna er að við erum alltaf að leita að henni, hvort sem það er skortdýrið í okkur að leita að nýjum hlut til þess að veita okkur gleði eða við erum að reyna að finna hamingjuna í gegnum markmið sem við náum. Það er kannski gömul tugga að hamingjan liggi í ferðalaginu, hvert svo sem ferðinni er heitið.
Við lifum á tímum þar sem fólk gerir sér ekki að fullu grein fyrir því hvað við í raun höfum það gott, vegna þess að við erum að keyra áfram á auto-pilot sem umhverfið hefur búið til og við sogumst einhvern veginn inn í. Fólk leitar í alls konar heilræði, kvót, á Instagram eða í Youtube-myndbönd sem eiga að hjálpa þeim að komast í gegnum dag hvern, en í raun eru þetta bara tæki og tól til að hjálpa okkur að líða vel í fimm mínútur.
Manneskjan virðist þurfa stór áföll, líkamlegt eða andlegt hrun, til þess að vakna og átta sig á því hvað hversdagsleikinn er æðislegur.
„Ást er allt sem við þurfum“
Hamingja fyrir mér er orð sem hefur breyst gríðarlega síðustu ár og ætti að skipta út fyrir orðið ást. Hamingja er nefnilega orðið sem bara kemur og fer ... ást er allt sem við þurfum ... Hættum að leita og förum að njóta.
Við vitum aldrei hvað gerist á morgun, hvenær við kveðjum og hvað þá, hvað verður um okkur þegar við kveðjum? Hvað bíður okkar, himnaríki? Eða erum við í himnaríki? Pældu í því ... Þú ert á stað þar sem þú ræður nákvæmlega hvað þú gerir, við áttum okkur bara ekki á því.
Ala Watts sagði: „Happiness is NOT the Meaning of Life“.Finnum okkar tilgang og förum aðeins að njóta. Hendum egó-inu okkar í ruslið, egó-inu sem er alltaf að reyna eitthvað. Hættum að reyna og förum að vera.
Sleppum tökunum, hættum að taka okkur sjálf of alvarlega. Þetta er bara leikur. ÞETTA ER ALLT BARA LEIKUR!
90% er alltaf betra en 100%.
Meikar þessi texti einhvern sens? Mér er alveg sama? Þetta er ég… án filters. Án þess að velta mér of mikið upp úr hlutunum, án þess að líta til baka og efast um það sem stendur hér á undan. Ef þér finnst þetta áhugverður texti, geggjað. Ef ekki, geggjað …
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni og Kjarnanum með áskriftum og styrkjum síðan 2013. Með því að kaupa áskrift að Heimildinni styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.
Athugasemdir