Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál verður stofnað formlega fullveldisdaginn 1. desember næstkomandi. Aðstandendur stofnfundarins hafa sætt gagnrýni á samfélagsmiðlum í dag vegna auglýsingar með myndmáli og hugtökum þjóðernissinna og nasista.
Ólafur Hannesson, einn þeirra sem standa að stofnun félagsins, segist ekki vera í forsvari fyrir hópinn þar sem formaður hefur ekki verið kosinn. Hann segir teikningu í auglýsingunni vera fengna af forsíðu gamals eintaks af Morgunblaðinu. „Það er ekki verið að höfða gegn neinum hópum eða slíkt,“ segir Ólafur. „Þetta er bara fólk sem þykir vænt um land og þjóð og vill standa vörð um fullveldið. Þetta er ekki þessi myndlíking sem er búið að setja fram á Facebook og í fjölmiðlum.“
Ólafur segir að það hljóti að hafa verið hugsunarleysi að sjá ekki þessa tengingu. „Þeir sem eru að búa til eitthvað út úr þeirri mynd eru kannski aðilar sem hafa meiri áhuga á að mistúlka þetta en að sjá hvað raunverulega er til staðar,“ segir Ólafur. „Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þessi mynd á að tákna eitthvað slæmt í því samhengi. Þetta á ekki að vera nein sérstök þjóðernishyggja eða eitthvað svoleiðis. Það er bara verið að tala um að vernda fullveldið og ég held að flestir geti verið sammála um að það sé jákvæður hlutur. Það snýr ekki gegn neinum þjóðfélagshópi.“
Í auglýsingu vegna fundarins er notuð teikning af þreknum manni og slagorðið „Frjáls þjóð í frjálsu landi“. Fyrir aftan manninn eru til stuðnings vígbúinn víkingur, kaþólskur prestur og fleiri menn í herklæðum. Víkingurinn heldur á skildi með sólkrossinum, merki sem í gegnum tíðina hefur verið notað af þjóðernissinnum. Najsonal Samling, flokkur norska fasistans Vidkun Quisling, notaði krossinn í merki sínu og í seinni tíð hefur hann verið notaður í merki nýnasistavefsíðunnar Stormfront.
„Þetta á ekki að vera nein sérstök þjóðernishyggja eða eitthvað svoleiðis“
Teikningin birtist á forsíðu Morgunblaðsins kosningadaginn 5. júlí 1942, á sama tíma og flokkur Quisling var forsætisráðherra Noregs undir hersetu Nasistaflokks Adolf Hitler. Á teikningunni sést að samkoman er líklega á Þingvöllum, þar sem fjöldi manns er samankominn og veifar spjöldum með listabókstafnum D fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Stefna Sjálfstæðisflokksins,“ stendur á forsíðunni. „Endurreisn lýðveldisins. Frjáls þjóð í frjálsu landi. Reykvíkingar fylkja sjer um D-listann í dag.“
Ólafur segir að félagið sé stofnað vegna óánægju með hvert Sjálfstæðisflokkurinn stefnir og með það að markmiði að halda félögum í flokknum. Fylgi flokksins hefur minnkað nokkuð að undanförnu og er Miðflokkurinn kominn upp að hlið hans sem annar af stærstu flokkum landsins. Ólafur segir að ekki sé verið að reyna að ná til ákveðins hóps flokksmanna með myndmálinu. „Hugmyndin með félaginu er að halda utan um þann hóp sem finnst vanta ákveðinn stuðning í flokknum við þessi fullveldismál,“ segir hann. „Það er ekki verið að höfða inn á neina sérstaka aðila með myndmálinu. Það eru málefnin sem skipta máli.“
Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi þingmaður, bendir á líkindin við áróður nasista í færslu á Facebook. „Sjálfstæðisflokkurinn er eilítið óheppinn með myndarval á auglýsingunni fyrir nýja félagið sitt,“ skrifar hann. „Merkið á skildi víkingins er sólkrossinn, flokksmerki norska nasistaflokksins Nasjonal samling sem var illræmdur flokkur Vidkuns Quislings. Bergmálið við áróðursveggspjöld þess flokks er vægast sagt óþægilegt.“
Athugasemdir