Fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, Svein Harald Øygård, segir að gögnin í Samherjamálinu um fjármagnsflutninga Samherja í gegnum bankareikninga í norska bankanum DNB bendi til mögulegra brota útgerðarfélagsins á gjaldeyrishaftalögunum sem sett voru á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Stundin greindi frá upplýsingum úr Samherjaskjölunum í Namibíu, meðal annars fjármagnsflutningunum í DNB, í samstarfi við Wikileaks, Kveik og Al Jazeera fyrir tæpum tveimur vikum.
Eins og greint var frá í þessum umfjöllunum lokaði DNB bankinn bankareikningum sem tilheyrðu félaginu Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum, sem Samherji hafði notaði frá árinu 2011 til að greiða út laun og JPC Ship Management á Kýpur í maí í fyrra vegna þess ekki lá fyrir hverjir ættu þessi félög. Níu milljarðar króna frá Samherja höfðu þá farið um reikninga Cape Cod FS og til að greiða laun sjómanna sem unnu hjá Samherja í Afríku, meðal annars í Namibíu. Tekið skal að ekki er vitað hvort Seðlabanki Íslands hafi haft vitneskju um Cape Cod FS þegar bankinn rannsakaði mál Samherja en við húsleitina árið 2012 hafði Cape Cod verið til sem félag í eitt og hálft ár.
„Það hefði ekki verið hægt að skálda þennan skít“
Svein Harald talar um þessi tengsl á milli málanna tveggja, Samherjamálsins í Namibíu og Seðlabankamálsins, á Facebook-síðu sinni og setur upplýsingar um bankareikninga Samherja í DNB bankanum í samhengi við rannsókn Seðlabanka Íslands á meintum brot Samherja á lögunum um gjaldeyrismál en þetta mál hófst með húsleit hjá útgerðinni árið 2012.
Pistill hans hefst á orðunum „Það hefði ekki verið hægt að skálda þennan skít,“ og vísar þar til þess að margt í íslenska efnahagshruninu hafi verið lyginni líkast líkt og einnig gildi um mál Samherja í Namibíu.
Kýpur og möguleg brot á skilaskyldu
Svein Harald segir: „Samkvæmt fréttum áttu sér stað greiðslur frá reikningum Samherja í DNB til Kýpur og til Marshall-eyja sem og til namibískra ráðamanna [….] Áhugavert er að fyrir nærri áratug síðan spurðu margir sig spurninga um hvernig þessir bankareikningar á Kýpur voru notaðir.“
Seðlabankastjórinn fyrrverandi útskýrir svo hvernig hann telji að Samherji hafi mögulega notað eignarhaldsfélög sín á Kýpur til að brjóta gegn skilaskyldu þeirri á gjaldeyri sem var í gildi á Íslandi eftir hrunið 2008.
Skilaskyldan fól í sér að íslensk fyrirtæki og einstaklingar með lögheimili á Íslandi áttu að skila þeim gjaldeyri sem þeir fengu til Íslands, sama hvar svo sem millifærslurnar áttu sér stað. Ef þetta var ekki gert fól það í sér mögulegt brot á skilaskyldunni.
Eins og greint var frá í Stundinni voru bæði Þorsteinn Már Baldvinsson og Steinunn Helga Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona hans, sektuð vegna brota á skilaskyldu en þau fengu um 2 milljarða króna millifærða inn á reikninga sína í DNB frá eignarhaldsfélögum Samherja á Kýpur. Brotin og sektirnar voru svo afturkallaðar vegna mistaka sem gerð voru við setningu reglna um gjaldeyrismál.
Um skilskylduna og önnur ákvæði gjaldeyrishaftalaganna segir seðlabankastjórinn fyrrverandi: „Ísland setti gjaldeyrishöft eftir hrunið 2008. Íslenska krónan var að hruni komin og olli þetta Íslandi og Íslendingum miklum skaða, þar sem margir voru með erlend lán á bakinu. Þess vegna voru sett lög sem bönnuðu skipti á íslenskum krónum yfir í erlendar myntir í fjárfestingatilgangi. Að sama skapi voru íslenskir útflytjendur skuldbundnir til að skila erlendum gjaldeyri sínum til Íslands.“
Svona var hægt að brjóta lögin
Svein Harald segir svo í Facebook-innleggi sínu að ein leið til að brjóta gjaldeyrishaftalögin hafi verið að koma hagnaði fyrir erlendis, til dæmis með milliverðlagningu á fiski. Milliverðlagning er þegar til dæmis íslenskt útgerðarfélag, sem bæði selur og kaupir fisk útgerðarinnar, velur að haga viðskiptunum þannig að söluverð fisksins úr landi er umtalsvert lægra en söluverð fisksins erlendis með það fyrir augum að láta hagnaðinn af innbyrðis viðskiptum útgerðarinnar myndast erlendis. „Ein leið til að fara framhjá gjaldeyrishaftalögunum, gæti meðal annars verið að koma hagnaði af viðskiptum með fisk fyrir á Kýpur í gegnum „milliverðlagningu“. Þetta gæti meðal annars falið í sér að selja fisk til félags á Kýpur fyrir lágt verð og svo að láta félagið á Kýpur selja fiskinn til næsta kaupanda á miklu hærra verði. Hagnaðurinn myndi þá verða eftir á Kýpur og „fræðilega“ myndi fyrirtækið bæði losna við skatta og ná að komast framhjá gjaldeyrishaftalögunum.“
Var RÚV að „búa til glæp“?
Seðlabankamálið hófst á því að fréttaskýringaþátturinn Kastljós í Ríkissjónvarpinu kannaði og birti fréttir um viðskipti Samherja með karfa, samkvæmt því sem útgerðarfélagið hefur sjálft sagt um upphaf málsins í einu af erindum sínum með málið. „Þann 20. febrúar 2012 kom fréttamaður Kastljóss, Helgi Seljan, á fund í gjaldeyriseftirlitinu. Bar hann undir starfsmenn þess upplýsingar sem hann hafði og vörðuðu verðlagningu karfa hjá Samherja í tengslum við útflutning félagsins til dótturfélaga sinna. Seðlabankinn hefur haldið því fram að þetta hafi markað upphaf málareksturs bankans á hendur Samherja.“
Inntakið í því sem Kastljósið rannsakaði og birti umfjöllun um árið 2012 var að Samherji hefði selt karfa frá Íslandi á undirverði til þýsks dótturfélags. Þannig hafi Samherji getað búið sér til meiri hagnað í útlöndum, en að með réttu hefði hagnaðurinn átt að myndast á Íslandi ef fiskurinn hefði verið seldur á markaðsvirði frá Íslandi. Þetta er auðvitað sú aðferð við að skapa hagnað erlendis sem Svein Harald ræðir í innleggi sínu þegar hann tengir þessi tvö mál saman með þessum hætti.
Rétt áður en upplýsingar um Samherjaskjölin birtust sakaði Þorsteinn Már RÚV um að hafa búið Seðlabankamálið til. „Er eðlilegt að ríkisfjölmiðill sé að reyna að búa til glæp með með stofnun sem á að vera mesta virðingarstofnun landsins?,“ sagði hann í viðtali á Bylgjunni.
„Félagið varð viðskiptavinur í kjölfar þess að sett voru gjaldeyrishöft á Íslandi“
Miðað við mat Sveins Øygård, og þær upplýsingar sem fram koma í Samherjaskjölunum, er málið aðeins flóknara en svo.
Reikningar stofnaðir út af gjaldeyrishaftalögunum
Eitt af því sem áhugavert við viðskipti Samherja við DNB bankann er að Samherji hóf notkun á skattaskjólsfélaginu Cape Cod FS til að greiða út laun sjómanna í ársbyrjun 2011 eftir setningu gjaldeyrishaftalaganna á Íslandi.
Eins og Stundin greindi frá fyrir tveimur vikum kom það fram í áhættumati sem unnið var innan DNB NOR um viðskipti JPC Shipmanagement áður en ákveðið var að loka ætti á viðskipti félagsins hjá DNB NOR að félagið hafi byrjað að eiga í viðskiptum við norska bankann árið 2013 út af gjaldeyrishaftalögunum á Íslandi. Samherji hafði þá þegar notað dótturfélag þess í nokkur ár enda var starfsmaður útgerðarinnar á Kanaríeyjum með umráðarétt yfir bankareikningi félagsins allt frá árinu 2010. Orðrétt segir um þetta í skýrslu norska bankans: „JPC Ship Management (á Kýpur) Ltd. [bankinn taldi JPC Ship Management vera móðurfélag] hefur verið viðskiptavinur LCI, sem nú tilheyrir Ocean Industries Global Seafood Oslo. Félagið varð viðskiptavinur í kjölfar þess að sett voru gjaldeyrishöft á Íslandi í kjölfar bankahrunsins árið 2008.“
Spurningin sem eftir stendur er hvort þessir bankareikningar og þessi viðskipti Samherja í gegnum skattaskjólið hafi átt sér stað gagngert út af gjaldeyrishaftalögunum og þá hvort þessi viðskipti hafi falið í sér brot á þeim lögum.
Varpa nýju ljósi á Seðlabankamálið
Seðlabankastjórinn fyrrverandi ræðir svo um hvernig þessar upplýsingar úr Samherjaskjölunum geta varpað nýju ljósi á Seðlabankamálið sem hófst með húsleitinni árið 2012.
Þannig virðist seðlabankastjórinn vera að ýja að því mögulega þurfi að skoða allt Seðlabankamálið, meðferð þess í kerfinu og fyrir dómstólum á Íslandi, í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í Samherjaskjölunum um fjármagnsflutninga og viðskipti Samherja erlendis.
Athugasemdir