„Við vildum óska þess að pabbi væri með okkur í dag en svo er því miður ekki,“ skrifar Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Marínós Ciesielski, vegna niðurstöðu endurupptökunefndar sem kynnt var í dag.
Nefndin hefur fallist á endurupptöku á dómi Hæstaréttar yfir þeim Kristjáni Viðari Júlíussyni, Sævari Ciesielski og Tryggva Rúnari Leifssyni sem voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana árið 1974. Þá er fallist á endurupptöku dómsins yfir Sævari, Kristjáni og Guðjóni Skarphéðinsyni vegna hvarfs Geirfinns Einarssonar og endurupptöku á dóminum yfir Alberti Klahn Skaftasyni, sem var sakfelldur fyrir hlutdeild í málinu.
Sævar Ciesielski barðist alla ævi fyrir því að málin yrðu tekin upp að nýju. Eftir að hann lést árið 2011 hafa börnin hans haldið baráttunni áfram, meðal annars Hafþór Sævarsson sem birtir mynd af föður sínum á Facebook í dag og skrifar:
Pabbi, loksins er komið að því! <3
Við systkinin getum loksins fagnað því að mannorð þitt verður hreinsað.
Faðir okkar barðist alla ævi fyrir sannleikanum í þessum málum og að sakleysi hans yrði viðurkennt. Mannshvörf tveggja manna voru misnotuð af rannsóknaraðilum.
Við vildum óska þess að pabbi væri með okkur í dag en svo er því miður ekki.
Allt frá því að við munum eftir okkur hafa þessi mál litað tilveru okkar. Það er ekki hægt að útskýra með orðum þá upplifun að hafa fæðst inn í þetta ranglæti.
Endurupptökunefnd fellst á að Guðmundar- og Geirfinnsmál, sem aldrei voru dómtæk mál, verða tekin upp að nýju. Þá fellst nefndin ekki á að taka upp rangar sakargiftir á þessum tímapunkti; þær falla um sig sjálfar með sýknudómi.
Kærar þakkir, þið öll sem hafið stutt okkur allan þennan tíma.
Til hamingju pabbi, barátta þín og seigla hefur loksins skilað sér í endurupptöku.
Réttlætið sigrar að lokum.
Athugasemdir