Í tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu er fangelsið á Kvíabryggju. Nokkrum kílómetrum frá Grundarfirði á Snæfellsnesi, rétt handan hins fornfagra Kirkjufells, er látlaus húsaþyrping sem fyrir ókunnugt auga líkist mun frekar bóndabýli heldur en tukthúsi. Þegar betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að þar dvelja alls 23 fangar sem afplána dóma fyrir hin margvíslegustu afbrot. Hingað eru karlar og konur með ólíkan bakgrunn leidd saman og samkvæmt lögum er þeim gert að búa og starfa saman við afar þröngar, en frjálslegar, aðstæður. Þótt ólíklegt megi virðast kemur þeim yfirleitt vel saman, agabrot eru sjaldgæf og þrátt fyrir algjöran skort á girðingum og rimlum hefur enginn reynt að flýja í rúm þrjátíu ár. Fangar og fangaverðir eru sammála um ástæðuna; hér er komið fram við fanga af virðingu og vinsemd.
Lífseiga mýtan um lúxushótelið
Kvíabryggja komst aftur í umræðuna þegar fréttir bárust af því að Ólafur Ólafsson og síðar Hreiðar Már Sigurðsson hefðu hafið þar afplánun. Báðir fengu háa fangelsisdóma fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða og því þótti mörgum skjóta skökku við að þeir hefðu kost á að hefja fangelsisvist í opnu fangelsi. Aftur spratt upp umræðan um lúxushótelið Kvíabryggju þar sem fangar byggju við munað og lifðu í vellystingum. Ljóst er af samtali við fangaverði og vistmenn á Kvíabryggju að báðir hópar láta þessa lífseigu mýtu fara í taugarnar á sér. Þeir sem líkji Kvíabryggju við lúxushótel hafa eflaust aldrei verið í fangelsi, heldur ekki á lúxushóteli ef út í það er farið. „Fólk sem talar svona veit ekkert hvað það er að tala um. Það vill auðvitað enginn vera hérna,“ segir annar fanganna sem Stundin ræðir við. Eftir stutt dvöl í fangelsinu kemst blaðamaður að sömu niðurstöðu.
Salernisaðstaðan á Kvíabryggju minnir til dæmis alls ekki á hótel. Fangar deila slælegri klósettaðstöðu sem samanstendur af þremur klósettum, aðskildum með þunnum skilrúmum sem ná hvorki upp í loft né niður í gólf. Það fer því ekki fram hjá nokkrum manni ef einhver fær í magann, eins og starfsmenn orða það. Innst í rýminu eru síðan þrjár sturtur sem fangarnir deila. Ekkert þar inni minnir á lúxus. Sanngjarnara væri að líkja Kvíabryggju við stórt og fjölmennt sveitabýli þar sem hver heimilismaður hefur sitt hlutverk til þess að láta heimilishaldið ganga. Fjórir fangar sjá um matseldina fyrir fangelsið, nokkrir sjá um þrifin en flestir vinna dagsdaglega í fjárhúsunum sem nú telur á annað hundrað fjár. Önnur tilfallandi störf eru meðal annars viðhald á húsnæðinu, viðgerðir og þrif.
Athugasemdir