Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur ekki óskað skýringa né aðhafst með neinum hætti vegna frétta af breskum ríkisborgara sem var vísað frá borði í Keflavík þegar hann millilenti á Íslandi þann 16. febrúar á leið til Bandaríkjanna.
Maðurinn, sem er múslimi, var með lögmætt vegabréf og vegabréfaáritun en málið hefur vakið talsverða athygli bæði í Bretlandi og á Íslandi enda er enn í gildi lögbann á umdeilda forsetatilskipun Donalds Trump um að meina borgurum sjö múslimaríkja um ferðir til Bandaríkjanna. Maðurinn er velskur kennari og var á leið vestur um haf ásamt nemendum sínum.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, óskaði eftir skýringum frá ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Í svari sínu viðurkenndi Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra sem fer með málefni vegabréfseftirlits og lögreglunnar, að hún vissi ekkert um málið.
„Ég hjó eftir þessum fréttum. Mér er hins vegar ekki kunnugt um hverju þetta sætir, þessi afgreiðsla, og hefði ég nú vitað af þessari fyrirspurn þá hefði ég nú kannski mögulega verið búin að grafast fyrir um það,“ sagði hún. „En dómsmálaráðuneytinu hefur ekki borist nein skýring á þessu og reyndar ekki verið óskað eftir því… mér sýnist nú að það sé ekki endilega víst að þetta mál heyri undir íslensk stjórnvöld eins og þau eru en það er væntanlega verið að kanna þetta í einhverju mögulegu samstarfi við utanríkisráðuneytið en í öllu falli heyrir þetta undir bresk stjórnvöld og samskipti þeirra við bandaríska utanríkisráðuneytið í Bretlandi.“
Rósa Björk harmaði að helsti yfirmaður dómsmála á Íslandi vissi ekkert um málið og benti á að lögregla og vegabréfaeftirilitið á Íslandi hefðu komið að málinu og heyrðu undir ráðherra.
Sigríður sagði: „Eins og fram kemur er þetta nýskeð og ég verð bara að viðurkenna það að þetta mál hefur ekkert komið inn á borð dómsmálaráðuneytisins. Ég hef engar upplýsingar um þetta og íslensk stjórnvöld hafa engar upplýsingar um þessa ákörðun Bandaríkjamanna gagnvart þessum breska ríkisborgara. Ég vona að háttvirtur þingmaður virði mér það til vorkunnar að þetta er ekki beint eins og málið liggur á sviði ráðuneytisins, a.m.k. enn sem komið er.“ Þá bætti hún því við að sér þætti eðlilegt að ráðuneytið skoðaði þessi mál og það myndi ekki standa á sér að upplýsa um „tilvik sem þessi ef þau gerast tíðari á íslenskri grundu“.
Athugasemdir