Utanríkisráðherra Grænlands, Vittus Qujaukitsoq, mun ekki mæta á norðurslóðaráðstefnuna Arctic Frontier sem hefst á sunnudaginn í Tromsø. Ástæðan er sögð handtaka þriggja manna í tengslum við bæði hvarf Birnu Brjánsdóttur og mikið magn af hassi sem fannst um borð í togaranum Polar Nanoq.
Frá þessu greinir grænlenska úvarpið KNR.
Af 28 áhafnarmeðlimum Polar Nanoq eru 19 þeirra frá Grænlandi og er haft eftir utanríkisráðuneyti Grænlands að ættingjar þeirra hafi miklar áhyggjur af ástvinum sínum sem staddir eru hér á landi. Í ljósi stöðunnar hafa grænlensk yfirvöld opnað fyrir sérstök símanúmer. Þangað geta áhyggjufullir ættingjar leitað og komið á framfæri fyrirspurnum og fengið upplýsingar, en eitt símanúmer er fyrir dönsku og annað fyrir grænlensku.
Líkt og áður hefur komið fram hefur lögreglan staðfest að þeir handteknu séu frá Grænlandi.
Í frétt KNR, sem vísar í utanríkisráðuneyti Grænlands, að þeir sem í haldi eru eiga rétt á að hitta diplómata frá heimalandi sínu. Í þessu tilfelli væri það einhver frá sendiráði Danmerkur á Íslandi. Þá eiga þeir handteknu einnig rétt á túlk en fram kom í fréttum að yfirheyrslur hafi farið fram á bæði dönsku og ensku.
Þá segir einnig að utanríkisráðuneyti Grænlands eigi í nánu samstarfi við íslensk stjórnvöld, danska sendiráðið á Íslandi og Polar Seafood, útgerðina sem á grænlenska togarann Polar Nanoq.
Athugasemdir