„Við áttum heiðarlegan fund en náðum ekki að klára hann,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um fund þingflokks Framsóknarflokksins sem staðið hefur verið yfir í morgun, þar sem rætt var mál formanns flokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Sigmundur sagði ósatt um aðkomu sína í aflandsfélagi í viðtali sem sýnt var í heimildarmynd á RÚV í gær. Hann gekk í kjölfarið út úr viðtalinu og sagði það vera „fyrir neðan allar hellur“. Í kjölfarið reyndi hann að stöðva birtingu þess.
„Við munum halda áfram á eftir,“ segir Sigurður Ingi. Spurður hvað var rætt á fundinum segir Sigurður Ingi: „Ég held að það liggi ljóst fyrir“.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, sagði eftir fundinn að Sigmundur myndi ekki ræða við fjölmiðla fyrr en eftir þingfund í dag. Hins vegar fór Sigmundur í viðtal við Stöð tvö nokkrum mínútum síðar.
Sigmundur Davíð boðar að hann muni svara fyrir sig á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum sem hefjast klukkan 15.
Bjarna seinkar á leið frá Flórída
Forseti Íslands er á leiðinni til landsins úr ferðalagi erlendis, þar sem hann dvaldi á ótilgreindum stað í einkaerindum. Forseti hefur það hlutverk samkvæmt stjórnarskrá að setja saman ríkisstjórn.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra missti af flugi á leiðinni frá Flórída þar sem hann á orlofshús.
Stjórnarandstaðan hefur í morgun átt viðtöl við fjölmiðla í húsnæði Alþingis. Klukkan 12 hefst fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna vanhæfis forsætisráðherra.
Svaraði fyrir sig fyrir fram
Á sama tíma hefur þingflokkur Framsóknarflokksins fundað með formanni sínum vegna viðtalsins. Sigmundur skráði ekki hagsmuni sína eins og honum bar í hagsmunaskráningu Alþingis. Félag Sigmundar og eiginkonu hans gerði kröfu upp á hálfan milljarð króna í slitabú bankana, en hann seldi eiginkonu sinni sinn hlut í félaginu daginn áður en ný lög um aflandsfélög tóku gildi.
Sigmundur hefur ekki rætt við fjölmiðla frá því viðtal hans við sænskan blaðamann og Jóhannes Kr. Kristjánsson var birt í gærkvöldi. Hann svaraði hins vegar fyrir sig fyrirfram í bloggfærslu í gær, þar sem hann gagnrýndi Ríkisútvarpið harðlega, gagnrýndi fortíð pistlahöfundar, gagnrýndi tímasetningu þáttarins, sagði Stundina okkar hafa verið gerða að „pólitískum áróðursþætti“ og sagði að „dreifing óhróðurs“ um hann væri „grundvöllur að nýrri útrás“.
Fjallað hefur verið um aflandsfélag forsætisráðherra um allan heim í dag og gærkvöldi.
Þingfundur hefst klukkan 15 í dag og hefur verið boðað til mótmæla klukkan 17.
Athugasemdir