Umboðsmaður Alþingis sendi Einari Steingrímssyni og háskólaráði bréf á föstudag þar sem kvörtunum Einars vegna rektorskjör í Háskóla Íslands var vísað frá. Einar er einn þriggja aðila í framboði til rektors, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarmanni rektors og Guðrúnu Nordal.
Kvörtun Einars til Umboðsmanns Alþingis var þríþætt. Í fyrsta lagi taldi hann að Kristín Ingólfsdóttir rektor væri vanhæf til að fjalla um mál tengd rektorskjöri í háskólaráði, auk þess sem hann taldi þá ákvörðun háskólaráðs að kynna ekki rektorsframbjóðendur ekki standast góða stjórnsýsluhætti. Í þriðja lagi kvartaði hann undan því að tilteknir tölvupóstar frá honum til rektors og háskólaráðs hefðu ekki verið áframsendir á alla í ráðinu.
Rektor ekki vanhæfur
Hvað varðar meint vanhæfi rektors sagðist Einar, í bréfi til Umboðsmanns Alþingis, ekki líta svo að um venjulegt samband yfirmanns og undirmanns væri að ræða, heldur sé aðstoðarrektor einn nánasti samstarfsmaður rektors til sex ára, valinn af henni sjálfri. Til að verja ímynd sína og orðspor sé sennilegt að hún álíti þann mann æskilegastan sem arftaka sinn sem hefur um langt árabil starfað undir hennar handleiðslu. Haldi hún prófessorstarfi sínu við skólann verði hún undirmaður nýs rektors og þar af leiðandi geti það snert hennar hagsmuni að nýr rektor sé henni sammála um áherslur í starfi Háskólans.
Í svari sínu bendir Umboðsmaður á að fjallað er um hæfi starfsmanna í stjórnsýslulögum. Í athugasemdum við lögin segir að starfsmaður verði ekki vanhæfur í málum er fjalla um samstarfsmenn hans, eða undirmenn. Hins vegar geti hann orðið vanhæfur hafi hann verulega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Eins verði að meta hvort vensl, mjög náin vinátta eða fjandskapur sé þess eðlis að það geti haft áhrif á úrlausn málsins. „Það eitt að rektor og aðstoðarrektor séu nánir samstarfsmenn og að sá fyrrnefndi hafi ráðið hinn síðarnefnda í það starf leiðir ekki til þess að rektor sé vanhæfur,“ segir í úrskurði Umboðsmanns Alþingis.
Áður hafði Umboðsmaður óskað eftir svari háskólaráðs, sem taldi rektor ekki vanhæfan í málinu. Umboðsmaður Alþingis komst að sömu niðurstöðu og háskólaráð. „Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og að virtum þeim lagagrundvelli sem gildir um hæfi starfsmanna eða nefndarmanna til meðferðar máls sem reifaðar eru hér að framan tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat háskólaráðs að rektor hafi ekki verið vanhæf til meðferðar afgreiðslu háskólaráðs á erindum yðar í tilefni framboðs yðar til rektors Háskóla Íslands eða annarra þátta málsins vegna undirbúnings ráðsins fyrir væntanlegt rektorskjör,“ segir í bréfinu.
Háskólaráði ber ekki að greiða ferðakostnað
Einar starfar sem prófessor við Strathclyde-háskóla í Glasgow í Skotland og býr þar. Í bréfi Umboðsmans kemur fram að Einar hafi spurt háskólaráð hvort það hygðist beita sér fyrir kynningu á umsækjendum, hvort það myndi beita sér fyrir því að reynt yrði að tímasetja vissa atburði þannig að flestir gætu komist á þá án þess að þurfa að koma oft til landsins og hvort háskólaráð hygðist greiða kostnað af ferðum yðar til landsins í þessum tilgangi.
Svar háskólaráðs hafi verið skýrt: „Hver og einn sem lýst hefur yfir framboði til rektors ber ábyrgð á því, þ.m.t. kynningu á framboði sínu og stefnumálum, ferðum því samfara og kostnaði sem af framboðinu hlýst.“
Eins og fyrr segir taldi Einar það ekki samræmast góðum stjórnsýsluháttum að háskólaráð stæði ekki að kynningu frambjóðenda fyrir kjósendum. Þá vildi hann álit Umboðsmanns Alþingis á því hvort háskólaráði bæri að greiða ferðakostnað umsækjenda.
Í svari Umboðsmanns Alþingis segir að hann fái ekki séð í lögum eða reglum að fjallað sé um rétt umsækjenda eða skyldu háskólaráðs til að standa að kynningu umsækjenda með ákveðnum hætti, eða greiða ferðakostnað vegna umsækjenda sem eru búsettir erlendis. „Ég tel mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að af jafnræðisreglum leiði að þér eigið rétt á því að fá ferðakostnað greiddan til að koma til landsins og taka þátt í kosningunum.“
Háskólaráð hafði fjallað um málið
Að lokum segir í bréfi Umboðsmanns að hann fái ekki betur séð en að háskólaráð hafi fjallað um erindi Einars. Vísar annars vegar í fundargerð ráðsins og hins vegar til bréfs háskólans til Einars, með afriti af bókun háskólaráðs og svörum ráðsins. „Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki nægilegt tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunar yðar.“
Með vísan til þessa telur Umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Telst málinu því lokið að hans hálfu.
Kosið á morgun
Hér er kynning Háskóla Íslands á frambjóðendum til rektors, en rektorskjörið fer fram á morgun. Á kjörskrá eru alls 14.110, þar af 1.485 starfsmenn og 12.625 stúdentar. Hljóti enginn frambjóðenda meirihluta greiddra atkvæða verður kosið að nýju 20. apríl um þá tvo frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta.
Athugasemdir