Hjónin Birna Óladóttir og Dagbjartur Einarsson í Grindavík eiga að baki langt hjónaband. Á ýmsu hefur gengið í lífi þeirra. Dagbjartur hélt framhjá konu sinni með nágrannakonu þeirra og vinkonu Birnu fyrir fjölmörgum árum. Framhjáhaldið varð stórmál og hjónabandið lék á reiðiskjálfi. Stundin heimsótti þau í Grindavík. Þau búa í fallegri íbúð í fjölbýlishúsi á staðnum þar sem þau hafa lifað og starfað öll sín fullorðinsár.
„Hjónabandið er ljómandi gott. Það komu tímar þegar Dagbjartur hélt að grasið væri grænna hinum megin. Svo jöfnuðum við það. Sambandið hefur aldrei verið betra,“ segir Birna Óladóttir, sem á að baki rúmlega 50 ára hjónaband með Dagbjarti Einarssyni útgerðarmanni.
Í ævisögu hjónanna, Það liggur í loftinu, eftir Jónas Jónasson segja hjónin af einlægni frá þeirri lífsreynslu sinni þegar Dagbjartur varð uppvís að framhjáhaldinu. Birna segir að hann hafi viðurkennt allt.
„Þetta var svolítið eins og með sakamenn sem þræta fram í rauðan dauðann. Svo brotna þeir og játa allan andskotann. Eftir að hann kom heim í öfugum nærbuxunum játaði hann allt. Hann hafði þá hlaupið út undan sér áður,“ segir Birna. Dagbjartur skýtur inn í og segir að það hafi svo sem ekki verið „mikið að játa“.
„Mér fannst það allavega mikið þegar ég fékk að heyra það,“ segir Birna og lítur brosandi á mann sinn.
Það tók þau Birnu tíma að vinna sig út úr málinu.
Athugasemdir