Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, kallaði eftir afsögn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi í dag þar sem fjallað var um þá ákvörðun ráðherra að birta ekki skýrslu um aflandseignir Íslendinga fyrr en eftir að þingkosningar fóru fram.
Sagði Björn, sem sjálfur var málshefjandi umræðunnar, að kominn væri tími til að ráðherra yrði látinn svara fyrir ákvörðun sína og að ræða þyrfti hverjar afleiðingarnar yrðu. Hann spurði Bjarna spurninga um málið og gagnrýndi jafnframt þær skýringar og afsakanir sem ráðherra hefur áður gefið.
Í svörum sínum lagði forsætisráðherra áherslu á að hann hefði ekki brotið lög og að hann hefði einungis frestað birtingu skýrslunnar til að tími gæfist til þinglegrar umfjöllunar um hana. Þá endurtók Bjarni Benediktsson þá skoðun sína að hann teldi að birting og efni skýrslunnar hefðu ekki haft áhrif á úrslit þingkosninganna þann 29. október.
Björn Leví benti á að í siðareglum ráðherra er skýrt kveðið á um að ráðherra skuli hafa frumkvæði að því að birta upplýsingar sem varða almannahag. „Ég hlakka til að heyra skoðanir þingmanna á því hverjar afleiðingarnar ættu að vera og af hverju. Ég bið þingmenn um að hafa þetta í huga, við hérna inni erum ekki almenningur. Við vinnum í almenningsþágu. Ráðherrar bera þar mesta ábyrgð og eitt af ábyrgðarhlutverkum ráðherra er að miðla upplýsingum. Ekki bara að miðla upplýsingum til þingsins heldur til almennings en 6. grein siðareglnanna fjallar einmitt um upplýsingagjöf og samskipti við almenning, ekki við þingið,“ sagði hann.
„Hvað þýðir það þegar ráðherrar geta bara sleppt því að fara eftir siðareglum sem þeir setja sjálfum sér, lögum samkvæmt? Er það traustvekjandi? Er það ábyrgt? Er það ekki misbeiting valds þegar ráðherra sem sundaði viðskipti í gegnum skattaskjól ákveður að fela skýrslu um viðskipti Íslendinga í gegnum skattaskjól rétt fyrir kosningar sem var flýtt vegna skattaskjólsviðskipta? Hagsmunaáreksturinn er augljós. Kosningasamhengið er augljóst. Sá sem valdið hafði, þrátt fyrir hagsmunatengsl og þrátt fyrir siðareglur, ákvað að fela upplýsingar sem kjósendur áttu rétt á að fá.“
Sagði Björn að með ákvörðun sinni hefði ráðherra svikið kjósendur. „Ráðherra, með misbeitingu á valdi sínu, kom í veg fyrir að kjósendur gætu, fyrir kosningar, lagt eigið mat á þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni. Trúnaðarbrot gerast ekki alvarlegri en þetta. Það er óásættanlegt að ráðherra geri svona, ekki bara umræddur ráðherra heldur allir ráðherrar. Ráðherrar núna, ráðherrar framtíðarinnar. Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða. Alþingis vegna. Þjóðarinnar vegna.“
Þá bað hann þingmenn um að velta fyrir sér hvað samviskan segði þeim. „Afsaka þingmenn verknaðinn af því að það hentar stöðu þeirra persónulega? Telja þingmenn sig vera ábyrgðarlausa með því að gera ekki neitt? Skilja þingmenn kannski ekki hversu alvarlegt þetta trúnaðarbrot er? Hvað gerist næst þegar einhver ráðherra stingur upplýsingum ofan í skúffu? Á ekkert að gerast? Ef afleiðingarnar verða engar núna, af hverju ættu að vera afleiðingar seinna? Ef það verða afleiðingar seinna, af hverju ekki núna? Geta háttvirtir þingmenn sagt heiðarlega að sama hver eigi í hlut, sama hvenær, þá eigi afleiðingarnar af svona svikum eigi að vera nákvæmlega engar? Auðvitað ekki. Því bið ég um þessa sérstöku umræðu þar sem forsætisráðherra getur útskýrt mistök sín, beðist afsökunar og sagt af sér.“
Athugasemdir