Meira en helmingur Alþingismanna hafði samþykkt að leggja nafn sitt við mótmælabréf til pólska þingsins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar um skilyrðislaust bann við fóstureyðingum þar í landi þegar Ásta Guðrún Helgadóttir, þingkona Pírata, afhenti sendiherra Póllands yfirlýsinguna um hádegisleytið í dag.
Aðspurð hvernig standi á því að aðeins 34 þingmenn séu á listanum segir Ásta Guðrún að öllum þingmönnum hafi verið boðið að vera með. Hins vegar hafi ekki borist svör frá öllum.
Í bréfi þingmannanna er pólska þingið hvatt til þess að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt kvenna auk þess sem lýst er þungum áhyggjum af fyrirhugaðri lagasetningu gegn fóstureyðingum í Póllandi.
Formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi nema Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa skrifað undir yfirlýsinguna en Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er eini ráðherrann sem lagt hefur nafn sitt við bréfið. Forseti Alþingis hefur ekki skrifað undir.
Sá stjórnmálaflokkur í Póllandi sem stendur fyrir hinni umdeildu lagasetningu um afnám allra undanþága frá banni við fóstureyðingum er íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti. Um er að ræða systurflokk Sjálfstæðisflokksins í svokölluðum Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna (AECR).
Á meðal þeirra sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur lag sitt við í samtökunum eru stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem þekktir eru fyrir þjóðernisofstæki og andstöðu við fóstureyðingar og lifnaðarhætti hinseginfólks. Þá er Réttlætis- og framfaraflokkurinn frá Tyrklandi aðili að samtökunum, flokkur Erdogans sem orðið hefur uppvís að grófum alræðistilburðum undanfarin ár, ekki síst eftir að gerð var misheppnuð valdaránstilraun þar í landi.
Sjálfstæðisflokkurinn er eini hægriflokkurinn á Norðurlöndum sem tilheyrir samtökunum að færeyska Fólkaflokknum undanskildum. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn varaformaður stjórnar AECR í fyrra og situr þar meðal annars ásamt fulltrúa Laga og réttlætis, Önnu Fotyga. Aðeins þrír óbreyttir þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum hafa skrifað undir áskorunina til pólska þingsins, en 11 þingmenn flokksins höfðu ekki tilkynnt um þátttöku sína þegar bréfið var afhent. Í þeim hópi er Guðlaugur Þór Þórðarson.
Samtökin AECR urðu til eftir að Breski íhaldsflokkurinn klauf sig úr EPP, samtökum hófsamra og borgaralegra hægriflokka vegna ágreinings um Evrópumál en Sjálfstæðisflokkurinn gekk í AECR árið 2011. Núverandi forseti samtakanna er Jan Zahradil, tékkneskur stjórnmálamaður sem til að mynda hefur barist gegn aðgerðum til að stemma stigu við útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þingflokkur AECR á Evrópuþinginu nefnist Evrópskir íhalds- og umbótasinnar (ECR). Í kjölfar síðustu kosninga til Evrópuþingsins gengu fjórir þingmenn Danska þjóðarflokksins og tveir þingmenn Finnska flokksins, sem áður hét Sannir Finnar, til liðs við þingflokkinn, en báðir flokkarnir eru þekktir fyrir þjóðernisofstæki og útlendingahatur.
Fram kom í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í fyrra að stefna AECR félli vel að grunnstefnu flokksins. „Þar vegur auðvitað þungt áhersla samtakanna á frelsi einstaklingsins sem og gagnrýni þeirra á aukna miðstýringu innan Evrópusambandsins og þróun þess í átt að sambandsríki.“
Þeir sitjandi þingmenn sem ekki hafa skrifað undir áskorunina til pólska þingsins koma nær allir úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum:
Ásmundur Friðriksson
Brynjar Níelsson
Einar K. Guðfinnsson
Eygló Harðardóttir
Frosti Sigurjónsson
Bjarni Benediktsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Illugi Gunnarsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Willum Þór Þórsson
Vilhjálmur Bjarnason
Vigdís Hauksdóttir
Valgerður Gunnarsdóttir
Sigrún Magnúsdóttir
Sigríður Á. Andersen
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Lilja Rafney Magnúsdóttir
Jón Gunnarsson
Höskuldur Þórhallsson
Haraldur Einarsson
Haraldur Benediktsson
Gunnar Bragi Sveinsson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Kristján Þór Júlíusson
Þórunn Egilsdóttir
Þorsteinn Sæmundsson
Uppfært kl. 21:20
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri grænna, skrifar í athugasemd fyrir neðan fréttina:
„Ég var of sein að skrifa undir þessa áskorun þar sem ég var veðurteppt fyrir vestan en að sjálfsögðu styð ég mannréttindi pólskra kvenna og mótmæli harðlega ofbeldi stjórnvalda gegn sjálfsákvörðunarrétti þeirra!“
Athugasemdir