Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að sykurskatturinn svokallaði hafði engin veruleg áhrif á neyslu Íslendinga þann stutta tíma sem skattheimtan stóð. Sykurskatturinn var í gildi skemur en tvö ár og stóran hluta þess tíma gengu framleiðendur og innflytjendur á miklar birgðir sem safnað hafði verið áður en skattheimtan hófst. Innflytjendur hömstruðu sykur á mánuðunum fyrir gildistöku laganna en „sykurfjallið“ svokallaða dugði í eitt ár. Þá hefur heimsmarkaðsverð á sykri, mælt í íslenskum króum, lækkað um 40% frá vori 2012 og á sama tíma styrktist gengi krónunnar. Áhrif sykurskattsins á verðlag vara voru þannig of lítil fyrir neytendur til að taka eftir þeim í flestum tilvikum og urðu neysluáhrifin því lítil. Vegna takmarkaðra neysluáhrifa voru tekjur ríkisins af skattheimtunni hins vegar hærri en til var stofnað, þrátt fyrir birgðasöfnun framleiðenda.
Átti að draga úr sykurneyslu og afla ríkinu tekna
Í lok nóvember 2012 lagði Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um vörugjöld og tollalögum þar sem auknar álögur á sæta matvöru gengdu miklu hlutverki. Lögin voru samþykkt mánuði síðar, tóku gildi 1. mars 2013 og tóku til innflutnings flestra sætra matvæla, hvort sem þau voru sætt með sykri eða með gervisætuefnum. Tilgangur laganna var að draga úr neyslu á sætindum og um leið að afla ríkinu aukinna tekna.
Athugasemdir