Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsir yfir eindreginni andstöðu við neyslustýringu og skattahækkanir á forsendum lýðheilsusjónarmiða í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook í dag. Gagnrýnir hann þar þingmenn Pírata og Vinstri grænna fyrir „skattatillögur í nafni lýðheilsu“.
Í gær lagði Brynjar hins vegar sjálfur til, sem framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að tóbaksgjald yrði hækkað, meðal annars á forsendum lýðheilsusjónarmiða. Í nefndaráliti sem hann stendur að auk sex annarra þingmanna, er lögð til umtalsverð hækkun á tóbaksgjaldi og sérstaklega tekið fram að stjórnvöld hafi um langa hríð „unnið að því markmiði að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því m.a. að hvetja til minni tóbaksneyslu almennings“ auk þess sem meðal annars „lýðheilsu“-rök standi til þess „að misræmi gjalds miðað við hvert gramm tóbaks verði leiðrétt“.
Í dag kallar Brynjar neyslustýringu sem þessa „pyntingastefnu“. Í stöðuuppfærslu á Facebook segist Brynjar ekki vilja gera lítið úr fíknivanda og bætir við: „Sumir glíma við matarfíkn og/eða sykurfíkn, aðrir áfengis og jafnvel spilafíkn og svo framvegis. Einu hugmyndir stjórnmálamanna í glímunni við fíkn einstakra manna er að banna öllum neyslan eða háttsemina eða að skattleggja alla til dauðs. Þótt sumir borði of mikið af sykri og öðru óhollu, spili rassinn úr buxunum í fjárhættuspilum eða staupi meira en góðu hófi gegnir, er kannski óþarfi að banna hófsemdarmönnum í þessum efnum alla gleði eða okra á þeim til að draga úr henni.“ Þá skrifar hann: „Gæti kannski verið til bóta að menn bæru almennt meiri ábyrgð á sjálfum sér í stað þess að stjórnmálamenn kvelji alla aðra. Ég get heldur ekki séð að þessi pyntingastefna beri nokkurn árangur. Mér datt þetta svona í hug þegar ég sá skattatillögur vinstri manna í dag í nafni lýðheilsu. Hið frjálslynda umbótafl Pírata gaf Vg lítið eftir í ofátinu af hlaðborði nýrra tekjustofna.“
Athugasemdir