Jarðhræringar hafa verið í kringum eldfjallið Kötlu í Mýrdalsjökli síðasta klukkutímann. Skjálfti yfir fjóra á Richter fannst upp úr klukkan þrjú.
„Við erum að vakta þetta,“ segir starfsmaður Veðurstofunnar.
Kristín Jónsdóttir, sérfræðingur Veðurstofunnar, segir eldgos ekki vera hafið. Ekki sé greinanlegur gosórói.
„Við vitum ekki hvernig næsta gos verður, en ef við mælum gosóróa þýðir það að kvika er komin nálægt yfirborðinu. Þetta er bara stór skjálfti og margir eftirskjálftar og í rauninni ekkert annað sem við sjáum. Það kom skjálfti á stærðinni 4,3 klukkan 15.14. Svo er þetta eins og gerist yfirleitt í kjölfar svona skjálfta að það koma eftirskjálftar,“ segir Kristín.
Skjálftar yfir 4 á Richter eru ekki algengir við Kötlu. Þó urðu tveir svo stórir skjálftar í lok ágúst síðastliðnum.
Athugasemdir