Ragnar Þór Pétursson, kennari í Norðlingaskóla, telur stjórnvöld hafa gert stóra stefnubreytingu á vægi samræmdra prófa án faglegrar umræðu og þvert á yfirlýsingar. Nú geti framhaldsskólar gert samræmd próf að forsendu inntöku.
Í pistli sem birtist á Stundinni í gærkvöldi rekur Ragnar Þór eðlisbreytingarnar. Lengi hafi íslenskir nemendur mátt senda með ýmis gögn þegar þeir sækja um framhaldsskóla; persónulegar upplýsingar, meðmælabréf og annað. Fyrir örfáum mánuðum hafi hins vegar borist tilkynning frá Menntamálaráðuneytinu um að búið væri að breyta orðalagi í reglunum um þetta atriði. Hér eftir gætu nemendur hakað við þann möguleika að framhaldsskólaumsókn fylgdu einkunnir þeirra úr samræmdum prófum. „Þetta vakti strax furðu og illar grunsemdir,“ skrifar Ragnar. „Kannski voru það þessar efasemdir sem urðu til þess að yfirvöld ákváðu að taka það sérstaklega fram að hér væri ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Aðeins væri verið að skerpa á hlutunum, skýra þá betur.“
„Það eru aum yfirvöld sem gera stefnubreytingar í kyrrþey og þræta jafnvel fyrir þær.“
Á forsíðu Morgunblaðsins í gær sagði síðan að framhaldsskólum væri nú í sjálfsvald sett hvort þeir nýta sér einkunnir úr samræmdum prófum í 9. bekk til þess að greina á milli væntanlegra nýnema. „Samkvæmt upplýsingum sem Menntamálastofnun hefur hyggjast þeir skólar sem munu kalla eftir gögnum um samræmdu prófin nýta þau til að velja á milli nemenda sem hafa sömu eða sambærilega einkunn úr lokaprófi grunnskóla,“ segir í frétt Morgunblaðsins. Ragnar Þór segir að um mikla stefnubreytingu sé að ræða og segir hana „glæpsamlega“.
„Það er ekki aðeins svo að þetta gerist án faglegrar umræðu, þetta gerist þvert á yfirlýsingar sem gáfu í skyn að engar svona breytingar væru í farvatninu. Það er vesælt menntakerfi sem misvitrir embættis- og stjórnmálamenn geta ráðskast með að eigin vild án þess svo mikið sem að þurfa að taka umræðu um hugmyndir sínar. Það eru aum yfirvöld sem gera stefnubreytingar í kyrrþey og þræta jafnvel fyrir þær,“ skrifar hann.
Óttast afleiðingarnar
Ragnar hefur áhyggjur af því hvaða afleiðingar þessar breytingar muni hafa fyrir skólastarfið. „Þótt ekki væri annað mun þetta hertaka kennslu í 7. og 8. bekk sem mun hér eftir miða að því að toppa á þessum prófum í 9. bekk. Námskráin verður svelt og að henni þrengt til að sinna aðeins þeim þrönga hluta náms sem þessi próf megna að mæla með sæmilegu viti. Nemendur verða enn frekar sviknir um list- og verknám. Meiri tími fer í andlaust stagl og tafs og minni í sköpun, samvinnu og hina frjóu þætti náms. Áhrifin á skólastarf eiga svo eftir að koma í ljós. Nemandi sem leggur mikið á sig til að toppa á samræmdum prófum í 9. bekk mun lítinn hvata hafa til að bæta sig eftir það – alveg eins og nemandi sem stendur höllum fæti í 9. bekk mun engan möguleika eiga á skólavist í ákveðnum skólum þótt hann stórbæti sig eftir það,“ skrifar hann meðal annars.
Athugasemdir