Húsnæðisverð er á fljúgandi ferð og hefur ekki hækkað jafn ört síðan á árunum fyrir hrun. Á seinustu tólf mánuðum hefur húsnæðisverð hækkað um 17,8 prósent en ekki hefur mælst jafn mikil hækkun síðan á fyrri hluta ársins 2006. Nú er raunverð húsnæðis aðeins 4,5 prósentum lægra en þegar það mældist þegar það var hæst en spár segja að húsnæðisverð muni ná sögulegu hámarki næsta haust.
Már Guðmunsson seðlabankastjóri hefur lýst yfir áhyggjum af ástandinu og sagt að á næstunni gætu þjóðhagsvarúðartæki verið virkjuð. Þetta kemur fram hjá Greiningardeild Íslandsbanka.
Í ræðu sinni í Seðlabankanum á fimmtudag sagði Már Guðmunsson meðal annars: „Því er ekki að leyna að vaxandi áhyggjur eru af aðstæðum á fasteignamarkaði og til þess kann að koma á næstunni að tiltæk þjóðhagsvarúðartæki verði virkjuð til að draga úr áhættu sem tengist þeim.“ Greiningardeild Íslandsbanka bendir á að Már gæti átt við lög um fasteignalán nr. 118/2016 sem ganga í gildi á morgun, 1. apríl. Lögin kveða meðal annars á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að koma á veðsetningarhlutfall og/eða þaki á heildarfjárhæð fasteignaláns eða greiðslubyrði eftir tekjum neytenda.
Bætt staða heimilana
Greiningardeild Íslandsbanka segir húsnæðismarkaðnum nú svipa mikið til áranna fyrir hrun. Þar segir að bætt staða heimilanna spili stóran þátt í hækkun húsnæðisverðs. Bætt eiginfjárstaða húsnæðiseigenda hefur stutt við aukna eftirspurn eftir húsnæði en húsnæðislán lífeyrissjóðanna til heimilana hafa margfaldast á undanförnum þremur árum.
Kaupmáttaraukning seinustu missera hefur jafnframt haft mikil áhrif. Á seinasta ári jókst kaupmáttur um 9,5 prósent og hefur jafn mikil kaupmáttaraukning ekki mælst síðan á árunum 2004 og 2007. Húsnæðisverð hefur hækkað töluvert umfram kaupmátt og verður því sífellt erfiðara að kaupa sína fyrstu fasteign.
Eins og fyrir hrun
Uppgangur á atvinnumarkaðnum hefur einnig áhrif. Á seinasta ári fjölgaði erlendum starfsmönnum mikið, en rúmlega 10 prósent vinnuafls eru erlendir ríkisborgarar og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Á seinasta ári fluttu margir til landsins og voru aðfluttir umfram brottflutta rúmlega 4 þúsund manns. Aðeins hafa eins margir flutt til landsins á árunum 2006 og 2007. Greiningardeild Íslandsbanka telur að áhrif aðflutts vinnuafls á húsnæðismarkaðinn séu töluvert meiri en bein áhrif ferðaþjónustunnar vegna íbúða í útleigu til ferðamanna. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur þó haft töluverð áhrif en á seinsta ári fjölgaði íbúðum sem eru í útleigu öllum stundum um 509 íbúðir milli ára.
Misskipting eykst
Mikill skortur er á húsnæði og talið er að byggja þurfi í minnsta lagi 8 þúsund íbúðir fyrir árslok 2019 til að ná jafnvægi á markaði. Stundin hefur undanfarið fjallað um áhrif hækkunar húsnæðisverð á stöðu ungs fólks og þau misskiptingaráhrif sem fylgja í kjölfarið. Ungt fólk á nú erfiðara með að flytja úr foreldrahúsum og komast almennt ekki inn á síhækkandi markaðinn.
Athugasemdir