Á Facebook má finna fjölmarga hópa, bæði lokaða og opna, sem virka eins og nokkurs konar sölutorg fyrir flest öll fíkniefni. Einn hópur er þó örlítið frábrugðinn öðrum og kallast hann Dóp fyrir dót. Á þeirri síðu skiptast notendur á ótrúlegustu vörum fyrir fíkniefni. Í fljótu bragði virðast föt frá Adidas vera meðal vinsælustu varanna sem skipt er á fyrir fíkniefni. Úlpur frá 66° norður eru líka vinsælar en þess má geta að slíkar úlpur eru algengt þýfi.
Út frá lýsingum í auglýsingum innan hópsins má telja líklegt að margt þar sé þýfi. Ekki er hægt að segja annað en Dóp fyrir dót sé mjög virkur hópur, notendur eru vel ríflega 2.000 manns og fjölmargar auglýsingar birtast dag hvern. „Er með 150 mg tramol 1 og hálft spjald eftir, svo verð ég með sobril 15 mg 10 stk og stesolit 2 mg 10 stk og imovan 7,5 mg 10 stk seinna í dag. Er með slatta af lambafillet, læri og skelhreinsaðan humar 1 kg frosinn. Get nálgast hvað sem er nánast úr Krónunni, Nettó og eitthvað af smærri hlutum úr Ikea,“ skrifar notandi undir nafninu Alltaf Vakandi Vokuson.
Margir notendur taka skýrt fram að varan þeir sé ekki þýfi. Einn sem auglýsir borðtölvu tekur fram að hann hafi kvittanir.
Hér fyrir neðan má sjá skjáskot af nokkrum vel völdum auglýsingum á Dóp fyrir dót.
Athugasemdir