„Enn eru tafir á því að hægt sé að birta upplýsingar um stöðu lána, en allt bendir til þess að það takist fyrir næstu mánaðarmót. Enn og aftur er beðist velvirðingar á þeirri miklu töf sem hefur orðið á birtingu þessara upplýsinga.“
Þessi 18 daga gömlu skilaboð, frá 21. október, blasa við viðskiptavinum LÍN í dag, þegar þeir skrá sig inn á mitt svæði lánasjóðsins. Ljóst er að ekki hefur tekist að birta upplýsingar um stöðu lána fyrir mánaðamótin, eins og vonast var til. Truflun hefur verið á upplýsingagjöf LÍN til viðskiptavina í nokkra mánuði, með tilheyrandi óþægindum. „Þetta skýrst af því að við erum að taka nýtt upplýsingakerfi í gagnið,“ útskýrir Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN. „Við byrjuðum að afgreiða námslán út úr nýju kerfi fyrir þetta haust og greiðum nú út námslán samkvæmt nýju kerfi. Gamla kerfið var komið til ára sinna og því var nauðsynlegt að skipta því alfarið út. Þetta er hins vegar ekki kerfi sem þú skiptir út öllu í einu. Þú tekur þetta eins og þú sért að borða fíl, einn bita í einu. Við höfum svo sérhæft kerfi og það þurfti að sérsmíða mikið í kringum það.“
Athugasemdir