Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag í máli fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga gegn ungum manni, en farið var fram á nálgunarbann á hann gagnvart barnsmóður hans. Fyrir er á honum nálgunarbann gagnvart móður barnsmóður hans. DV fjallaði á dögunum mikið um árás hans á Þórólf Árnason, forstjóra Samgöngustofu, í Ármúlanum. Maðurinn hefur fengið dóm fyrir líkamsárás og hótanir.
Í dómsúrskurði er vísað til atviks sem er sagt að hafi átt sér stað þann 14. apríl síðastliðinn. Er sagt að þá hafi hann gengið berserksgang á heimili barnsmóður sinnar og veist í kjölfarið að móður hennar. Barnsmóðir hans bar þá barn hans undir belti og var settur fæðingardagur þennan sama dag. Hún fæddi barnið síðastliðinn föstudag en í málsgögnum kemur fram að þá hafi þurft að fjarlægja manninn af Landsspítalanum að ósk starfsfólks.
Fjölskyldu- og velferðarnefnd telur að börn konunnar séu í háska vegna framgöngu mannsins og telur að hún hafi búið við langvarandi heimilisofbeldi. Konan segir sjálf að maðurinn hafi ekki lagt á hana hendur en hann hafi verið ógnandi og hún hafi verið hrædd, svo mjög að á hún hafi flúið heimilið eftir árás á móður hennar.
Þrátt fyrir að það sé mat nefndarinnar að líkur séu á því að maðurinn muni beita barnsmóður sína ofbeldi þá mat dómarinn, Jón Höskuldsson, það sem svo að nálgunarbann væri ekki nauðsynlegt.
Athugasemdir