Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingkona Framsóknarflokksins til margra ára, fékk samtals 13 milljóna greiðslur frá velferðarráðuneytinu án þess að gerður væri samningur um þjónustukaup á árunum 2014 og 2015.
Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um kaup ráðuneyta á sérfræðiþjónustu sem send var Alþingi í gær. Ríkisendurskoðun gagnrýnir verklagið og segir það ekki í samræmi við lög um opinber innkaup eða góða starfshætti. Ótal aðrar athugasemdir eru gerðar við þjónustukaup ráðuneyta á undanförnum árum í skýrslunni og mun Stundin fjalla áfram um málið.
Fram kemur að á tímabilinu 2013 til 2015, meðan Eygló Harðardóttir var félags- og húsnæðismálaráðherra, hafi velferðarráðuneytið verið það ráðuneyti sem varði mestum fjármunum til kaupa á því sem kallað er „önnur sérfræðiþjónusta“.
Hluti þeirra viðskipta hafi verið viðvarandi verkefna á vegum ráðuneytisins. Ríkisendurskoðun kannaði greiðslur til Sivjar Friðleifsdóttur, fyrrum ráðherra, eftir að Eygló Harðardóttir skipaði hana sem formann Velferðarvaktarinnar, samráðs- og samstarfsvettvangs og álitsgjafa á sviði velferðarmála.
„Hún fékk greiddar 6 m.kr. 2014 og 7 m.kr. 2015 án þess að gerður væri samningur um þau þjónustukaup. Ríkisendurskoðun gagnrýnir það verklag sem er ekki í samræmi við lög um opinber innkaup eða góða starfshætti,“ segir í skýrslunni.
Athugasemdir