Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, er nú að flytja í glæsihöll í Garðabæ við Skrúðás 7 ásamt eiginkonu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttir, og dóttur þeirra. Vísir greindi frá þessu þann 13. desember. Áður hefur Sigmundur búið í Seljahverfinu í Breiðholti.
Samkvæmt fasteignaskrá eiga foreldrar Önnu Sigurlaugar, Páll Samúelsson og Elín Sigrún Jóhannesdóttir, húsið við Skrúðás sem metið er á 115 milljónir króna. En húsið á sér sögu líkt og flest hús. Fyrri eigandi hússins var eignarhaldsfélagið Stofn sem Stundin fjallaði nokkuð ítarlega um í september stuttu eftir að félagið var formlega úrskurðað gjaldþrota. Lýstar kröfur í búið voru tæplega 308 milljónir króna. Ríflega sex milljarða króna skuldir félagsins voru færðar niður eftir hrun.
Stofn var í eigu Boga Óskars Pálssonar, fyrrverandi stjórnarmanns Exista og mágs Sigmundar Davíðs. Bogi keypti húsið árið 2005 þegar allt lék í lyndi hjá honum en árið áður greiddi hann næst mest allra Reykvíkinga í opinber gjöld. Í aprílmánuði 2009 var húsið flutt yfir á félagið Stofn. Óljóst er hvað félag Boga borgaði Boga fyrir húsið.
Athugasemdir