„Það má ekki gleyma því að staðan á vinnumarkaði nú er til komin vegna þess að fólk skynjar að loksins er eitthvað til skiptanna, menn sjá að árangur hefur náðst og óttast að sinn hópur fái ekki sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi.“ Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins meðal annars í yfirlitsræðu sinni á setningarathöfn flokksþings framsóknarmanna sem hófst í dag. Hann sagði lausnina í kjaradeilunum því felast í því að launþegar og atvinnurekendur nái saman um sanngjarna skiptingu. Þá teldur hann skynsamlegast að huga sérstaklega að þeim hópum sem eru með lægri- og meðaltekjur fremur en að láta prósentuhækkanir ganga upp allan launastigann. „Það má ekki henda að við Íslendingar glötum því einstaka tækifæri sem nú blasir við til að verja stöðugleikann og ná áframhaldandi raunverulegum kjarabótum með verulega auknum kaupmætti,“ sagði Sigmundur Davíð og bætti því við að fari verðbólgan hins vegar aftur á skrið brenna allir launahækkanir upp á verðbólgubálinu og það bitni verst á launþegum.
Unnið að afnámi verðtryggingarinnar
Forsætisráðherra fór um víðan völl í ræðu sinni. Hann lagði í upphafi áherslu á góðan árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, kaupmáttur landsmanna sé nú meiri en nokkru sinni fyrr og gangi spár eftir séu Íslendingar nú staddir í lengsta samfellda hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Þá sagði hann leiðréttinguna einstaka á heimsvísu. Hún hafi verið efnahagslega skynsamlega aðgerð og að hún hafi verið réttlætismál.
Athugasemdir