Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir í viðtali við Fréttablaðið að hann sé „enn mjög upptekinn af því að koma að auknu samstarfi, agaðra verklagi og breiðari aðkomu í pólitík“. Á desemberþingi tók hann hins vegar þátt í að keyra umdeild mál í gegnum þingið með hraði í litlu eða engu samráði við hagsmunaaðila, sérfræðinga og stofnanir. Eins og fjallað er um í nýjasta tölublaði Stundarinnar á þetta einkum við um frumvarpið um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og frumvarp um málefni fatlaðra.
Lífeyrisréttindi skert og stéttarfélögum veittur sólarhringsfyrirvari
Lífeyrissjóðsfrumvarpi Bjarna Benediktssonar var útbýtt 12. desember og hafði að geyma ýmsar breytingar frá sambærilegu frumvarpi um jöfnun lífeyrisréttinda sem lagt hafði verið fram á síðasta þingi. Þrátt fyrir að breytingarnar væru gríðarlega umdeildar var hagsmunaaðilum og stofnunum aðeins gefinn sólarhringsfrestur til að skila Alþingi athugasemdum um málið. Á meðal þeirra sem gagnrýndu frumvarpið harðlega voru BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands og Landssamband lögreglumanna sem töldu að frumvarpið gengi gegn samkomulagi stéttarfélaga við ríki og sveitarfélög og fæli í sér ólögmæta skerðingu á lífeyrisréttindum fjölda fólks. Lífeyrissjóðsfrumvarpið var rætt á sex nefndarfundum efnahags- og viðskiptanefndar og í aðeins rúmar fjórar klukkustundir í þingsal. Þrátt fyrir hinn gríðarlega nauma umsagnarfrest bárust þinginu 70 umsagnir um frumvarpið, meðal annars gagnrýni og tillögur til úrbóta frá stofnunum, stéttarfélögum og sérfræðingum. Samt tók frumvarpið engum efnislegum breytingum í meðförum þingsins. Það var samþykkt með 38 atkvæðum Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnaren af þeim höfðu einungis 10 tjáð sig um málið á þinginu eða komið að umfjöllun þess í efnahags- og viðskiptanefnd. Óttarr Proppé greiddi atkvæði með frumvarpinu en sá aldrei ástæðu til að tjá sig um efni þess. Þingmenn Vinstri grænna og Pírata sögðu málið vanreifað og krefjast meiri tíma, yfirlegu og umfjöllunar enda gríðarlegir hagsmunir í húfi.
Ekkert samráð við fatlaða
Frumvarpi um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks var útbýtt þann 21. desember og klárað daginn eftir, að kvöldi 22. desember. Með frumvarpinu var ákvæði um skuldbindingu velferðarráðherra til að leggja fram frumvarp um notendastýrða persónuleg aðstoð (NPA) látið renna út en heimild veitt til að framlengja samninga um NPA sem gerðir hafa verið við fatlaða. Aðeins tveir þingmenn tjáðu sig um málið og tóku formlegar umræður um frumvarpið því aðeins 3 mínútur. Það var afgreitt á slíkum hraða að engum hagsmunaaðilum eða stofnunum gafst ráðrúm til að koma á framfæri athugasemdum. Eins og bent er á í yfirlýsingu frá Öryrkjabandalaginu stríðir slíkt ákvarðanaferli gegn þeim kröfum um aðkomu fatlaðra að lagasetningu sem Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leggur á stjórnvöld.
Óttarr Proppé hefur undanfarin ár talað mikið um að bæta þurfi vinnubrögð á Alþingi, dýpka samtalið og stuðla að betri umræðuhefð í stjórnmálum. „Handarbaksvinnubrögð og fúsk eiga ekki rétt á sér. Það þarf að vanda sig,“ sagði hann í eldhúsdagsumræðum á Alþingi þann 26. september síðastliðinn og gagnrýndi tilraunir til að „troða málum í gegnum þingið hvort sem um þau er sátt eða ekki“.
Í viðtalinu við Óttar sem birtist í Fréttablaðinu í dag segir hann: „Ég er nú enn að hugsa um mýkt og sveigjanleika. Er enn mjög upptekinn af því að koma að auknu samstarfi, agaðra verklagi og breiðari aðkomu í pólitík.“
Athugasemdir