Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir að stjórnarsamstarf Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins sé „óhugsandi við núverandi kringumstæður“. Alvanalegt sé að miðjuflokkar setji af stað orðróm um að vinstriflokkurinn á hverjum tíma ætli í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
„Slík herferð er nú farin af stað í þessum anda. Vera kann að samstarf af þessu tagi hafi einhvern tíma verið á dagskrá hér fyrr á árum. Hins vegar er það óhugsandi við núverandi kringumstæður eftir aðdraganda kosninganna, uppljóstranirnar úr Panama-skjölunum og viðbrögð forystumanna stjórnarflokkanna. Þetta hljóta allir að sjá,“ skrifar Svandís á Facebook-síðu sinni. Þetta er í takt við ummæli Steingríms J. Sigfússonar, fyrrum formanns Vinstri grænna, frá því í gær um að sú saga að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn ætli í stjórnarsamstarf sé „uppspuni og lygi frá rótum“.
Forsagan er sú að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, fullyrti á Facebook að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna, hefði „ljóstrað upp um það í Grímsey að fyrirhugað sé að mynda stjórn VG og Sjálfstæðisflokks“. Deildi hann grein þar sem þetta er staðhæft á Veggnum.is, síðu sem haldið er úti af sjálfstæðismanninum Viðari Garðarssyni, sem stofnað hefur stuðningssíður fyrir Sigmund Davíð og beitt sér fyrir hagsmunum stóriðjunnar í gegnum Facebook-síðuna Auðlindirnar okkar.
Benedikt Jóhannesson segir í samtali við Stundina að hann hafi gert ráð fyrir að rétt væri eftir haft Steingrími á vefnum en ekki kannað sérstaklega hver stæði á bak við síðuna. Hann rengi ekki þau orð Steingríms að frásögnin eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Athugasemdir