Skúli Magnússon, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og formaður Dómarafélags Íslands, segir málflutning Áslaugar Björgvinsdóttur, fyrrverandi héraðsdómara, ekki til þess fallinn að bæta dómstólakerfið á Íslandi. Þótt kerfið sé ekki fullkomið og ýmislegt megi betur fara sé ekki innistæða fyrir þeim alvarlegu ásökunum sem hún hafi sett fram. Ekkert sem fram komi í umfjöllun Stundarinnar eða málflutningi Áslaugar Björgvinsdóttur gefi tilefni til að ætla að dómstólakerfið á Íslandi sé meingallað eða ekki traustsins vert.
Stundin ræddi við Skúla Magnússon vegna fréttaskýringar um dómstólakerfið, stjórnsýslu þess og innra eftirlit, sem birtist í síðasta tölublaði. Í viðtalinu bregst Skúli meðal annars við harðri gagnrýni Áslaugar Björgvinsdóttur, fyrrverandi dómara. Áslaug lét af embætti í fyrra, en árið áður hafði komið til harðra deilna milli hennar og Ingimundar Einarssonar, dómstjóra í Reykjavík, sem urðu til þess að að Dómstólaráð tók starfshætti dómstjórans til skoðunar. Áslaug Björgvinsdóttir hefur lýst málinu sem skólabókardæmi um brotalamir í stjórnsýslu og innra eftirliti dómstólakerfisins, enda hafi þar allar helstu málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins verið brotnar, meðal annars meginreglan um vanhæfi.
Segist hafa reynt að miðla málum
Í Stundinni er haft eftir Áslaugu: „Í aðdraganda og undir rannsókn dómstólaráðs á dómstjóranum í Reykjavík afhjúpaðist m.a. að allir sem áttu að verja sjálfstæði dómsvalds og dómara, þ.e. dómstólaráð og stjórn dómarafélagsins, gerðu það ekki vegna eigin hagsmuna.“
Um þetta segir Skúli:
„Það er ekki rétt sem haft er eftir Áslaugu Björgvinsdóttur, fyrrverandi héraðsdómara, í umfjöllun Stundarinnar að hún hafi ekki fengið neins konar stuðning frá dómarafélaginu þegar hún átti í ágreiningi við dómstjórann í Reykjavík. Hið rétta er – og nú ræði ég þetta mál vegna þess að það hefur þegar verið rætt opinberlega og myndi ekki gera það að öðrum kosti – að dómstjórinn í Reykjavík gerði þá kröfu þegar hún sótti um veikindaleyfi á grundvelli vottorða, að hún sætti skoðun trúnaðarlæknis. Ég sem formaður Dómarafélagsins fylgdist með þeim ágreiningi, ég reyndi að miðla málum og hafði síðan frumkvæði að því að dómstólaráð tæki reglur um aðkomu trúnaðarlækna að dómurum til skoðunar og skýrði þær til framtíðar.
Athugasemdir