Frétt DV fyrr í dag þar sem greint var frá því að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hafi ælt í vél Wow Air á leið til Íslands frá Washington hefur vakið mikla athygli. Ásmundur Einar harðneitar því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis í viðtali við DV og segist hafa verið með magakveisu. Nútíminn fullyrðir hins vegar að þingmaðurinn hafi verið ölvaður í fluginu, og herma heimildir miðilsins að Ásmundur hafi sjálfur gefið þær skýringar að hann hefði drukkið áfengi ofan í svefnlyf.
Stundin ræddi við Tinnu Margrét Jóhannsdóttur sem sat fáeinum sætum fyrir aftan Ásmund í fluginu. Hún segir farir sínar ekki sléttar og lýsir því hvernig æluskvettur þingmansnins lentu á henni, vinkonu hennar og öðrum farþegum sem voru í námunda við Ásmund. Þá fullyrðir hún að Ásmundur Einar hafi verið sýnilega drukkinn.
„Ég hélt fyrst að hann hefði verið kýldur og ég fattaði ekki hvað hafði gerst því hann var allur rauður í framan og skyrtan líka.“
„Skvettist út um allt“
„Ég tók upp símann og tók mynd af vinkonu minni þegar hún fríkaði út. Hún var bara í panikki og stóð bara upp á sætinu. Þetta var ógeðslegt. Þegar við stóðum í röðinni að bíða eftir að komast út úr landi þá vaggaði hann. Það skvettist á fötin mín. Ég hélt fyrst að hann hefði verið kýldur og ég fattaði ekki hvað hafði gerst því hann var allur rauður í framan og skyrtan líka. Það voru skvettur út um allt, í loftinu og alls staðar. Þetta var viðbjóður,“ segir Tinna Margrét. Stundin hafði samband við umrædda vinkonu Tinnu sem staðfesti frásögn Tinnu.
Ekki nálægt salerninu
Tinna segir að þær vinkonur hafi þó ekki orðið fyrir mestu gusunni. „Það voru þarna Ameríkanar sem sátu næst honum. Þeir þurftu að skipta um föt. Ég sat nokkrum sætaröðum fyrir aftan hann. Þetta var ekki nálægt neinu klósetti, hann þurfti að labba alla vélina til að komast á það,“ segir Tinna. Hún ítrekar að hún hafi séð til Ásmundar Einars þar sem hann drakk rauðvín í flugvélinni. „Það var alltaf verið að bera í hann rauðvínið,“ segir Tinna.
Ætlar í magarannsókn
Ásmundur sagði í samtali við DV að ekki væri um hliðarverkanir áfengis að ræða. „Nei ha? Ég hef aldrei heyrt það áður. Ég er seinasti þingmaðurinn sem á við áfengisvandamál að stríða,“ segir Ásmundur. Hann viðurkennir hins vegar fúslega að hafa ælt. „Meðan ég var úti þá sótti ég mér magastillandi lyf. Það er eitthvað að mér í maganum ef ég á að vera hreinskilinn, hef verið að glíma við þetta í heila viku en ég veit ekki af hverju þetta stafar. Ég pantaði tíma um leið og ég kom heim og er eflaust á leiðinni í einhverjar magarannsóknir,“ segir Ásmundur Einar við DV. Ekki náðist í Ásmund Einar Daðason við vinnslu fréttar.
Athugasemdir