Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun fara fyrir rétt vegna aðkomu sinnar að 400 milljón evru greiðslu úr ríkissjóði þegar hún var fjármálaráðherra Frakklands, undir forsæti Nicolas Sarkozy, árið 2008, samkvæmt úrskurði hæstaréttar Frakklands.
Lagarde er ásökuð um „vanrækslu í starfi“ sem „orsakaði misnotkun á opinberu féi af hendi þriðja aðila,“ segir í úrskurði réttarins að því er fram kom í yfirlýsingu hans í dag.
Stjórn gjaldeyrissjóðsins lýsti því yfir á sama tíma að stofnunin treysti Lagarde til þess að sinna sínum verkefnum eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp.
Adidas selt með gríðarlegum hagnaði
Fréttir þess efnis að forstjórinn gæti sætt ákæru vegna vanrækslu í Frakklandi hafa verið ofarlega á baugi þar í landi árum saman. Málið snýst um Bernard Tapie, fyrrum eiganda fótboltafélagsins Marseille, sem fékk 400 milljóna evru, um 53.560.000.000 íslenskar krónur skaðabætur í kjölfar lögsóknar á hendur franska bankanum Credit Lyonnais, sem hann sakaði um að vanmeta hlut sinn í íþróttavörufélaginu Adidas. Lagarde, sem á þeim tíma var fjármálaráðherra, sá til þess að málið endaði með sáttagreiðslu, og færði persónulega rök fyrir þeirri lendingu.
Tapie, sem samhliða viðskiptum var einnig stjórnmálamaður, var einn stærsti hluthafi Adidas. Til þess að fjármagna stjórnmálaferil sinn fór hann að leita að kaupendum að hluta sínum í félaginu, sem hann seldi svo til Credit Lyonnais fyrir 2 milljarða franka. Nokkrum mánuðum síðar seldi bankinn, sem var í ríkiseigu, athafnamanninum Robert Louis-Dreyfus, hlutinn á tvöföldu kaupverði. Tapai ásakaði Credit Lyonnais um svik og krafðist greiðslna sem samsvaraði tapinu, sem að lokum voru greiddar árið 2007.
Franska ríkið borgaði brúsann
Það var eftir að þáverandi fjármálaráðherra Lagarde greip inn í málið og skipaði sérstaka nefnd til þess að leysa það. Nefndin úrskurðaði að lokum Tapie í hag og ákvað að greiða honum 400 milljónir evra.
Árið 2013 var svo byrjað að rannsaka Tapie vegna skipulagðrar svikastarfsemi. Hneykslið virtist afhjúpa spillingu innan franskrar stjórnsýslu í forsetatíð Nicolas Sarkozy. Sama ár leituðu frönsk yfirvöld á heimili Lagarde, en hún hefur verið til rannsóknar síðan 2011 þrátt fyrir að hafa alla tíð neitað sök. Segist hún „ávallt hafa starfað í þágu þjóðarinnar og samkvæmt lögum.“ Fullyrðir lögfræðingur hennar að hún verði sýknuð af öllum ásökunum.
Athugasemdir