Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, er dómsmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar og mun meðal annars fara með málefni mannréttinda og mannréttindasáttmála samkvæmt forsetaúrskurði. Hún var um árabil einn af ritstjórum hægrisinnaðs vefrits sem hæddist að „mannréttindamálum“ fyrir dómstólum, ól á tortryggni gagnvart flóttafólki og gagnrýndi að ríkið veitti of mörgum gjafsókn.
Sigríður hefur látið mikið að sér kveða í þjóðmálaumræðunni um árabil, bæði sem þingkona, pistlahöfundur og sem einn af ritstjórum vefritsins Vefþjóðviljans, Andríki.is. Í fréttatilkynningu á vef innanríkisráðuneytisins er sérstaklega tekið fram að Sigríður hafi setið í ritstjórninni á tímabilinu 1995 til 2006. Þegar Sigríður bauð sig fram í prófkjörum hjá Sjálfstæðisflokknum árið 2006 birtist pistill á Andríki þar sem framboði hennar voru gerð skil „til upplýsingar þeim sem kynni að þykja óhætt að inn í þingumræður bærust þau meginsjónarmið sem kynnt hafa verið á þessum vettvangi undanfarin ár“. Þannig virðist stjórnmálaferill Sigríðar samtvinnaður þeim viðhorfum sem viðruð hafa verið á vefnum Andríki.
„Jólatrésskrautið“ sem kallað er mannréttindi
Vefritið er enn starfrækt og beitir sér fyrir harðri markaðshyggju og íhaldssemi í efnahagsmálum. Á allra síðustu árum hefur vefritið meðal annars gagnrýnt druslugönguna harðlega, hvatt til þess að mannréttindaráð Reykjavíkurborgar verði lagt niður og hæðst að þeim sem vilja að löggjafinn leggi stein í götu vændis.
Á þeim tíma sem Sigríður Andersen tilheyrði sex manna ritstjórn síðunnar birtist þar pistill um að mannréttindaumræðan á Vesturlöndum hefði „þynnst verulega“. Grundvallarmannréttindi væru vel tryggð og nú væri fólk farið að kalla hvað sem er mannréttindi. „Íslendingar þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af mannréttindamálum enda eru mannréttindi að mestu leyti vel tryggð á Íslandi – og er þá ekki aðeins átt við grundvallarmannréttindi heldur líka allt jólatrésskrautið sem farið er að kalla mannréttindi,“ sagði í pistlinum.
Athugasemdir