Sjálfseignarfélagið Tantrahofið ehf. býður upp á nuddþjónustu þar sem fáklædd kona nuddar viðskiptavini meðal annars með brjóstum sínum. Reksturinn aflaði 7,2 milljóna króna tekna á síðasta ári.
Starfsmaður nuddþjónustunnar segir í samtali við Stundina að ekki sé um að ræða kynlífsþjónustu.
„Við bjóðum upp á tantranudd. Við nuddum með höndum og öðrum líkamshlutum, til dæmis hári, fótleggjum og brjóstum. Þetta er mjög náið og erótískt en samt ekki kynlífsþjónusta,“ segir Magdalena, starfsmaður nuddstofunnar Tantrahofsins í samtali við Stundina.
Á vef fyrirtækisins er körlum og konum boðið að upplifa leyndardóma tantra í formi munúðarfulls nudds. „Við snertum ekki kynfærin og það er aldrei sáðlát í nuddinu. Í tantra lærum við að skilja að fullnægingu og sáðlát,“ segir starfsmaðurinn aðspurður hversu langt þjónustan nær.
Nuddari á g-streng
„Nuddið er heil líkami við líkama nudd þar sem nuddarinn (kvenkyns) á mjög skapandi nautnafullan hátt snertir allan líkamann með höndum auk mismunandi hlutum líkama síns, svo sem brjóstum, fótum, hári o.fl. nuddið getur verið veitt af einum eða tveimur nuddurum. Nuddþeginn er nakinn í nuddinu og nuddarinn er aðeins í g-streng,“ segir í kynningu á nuddi fyrir karla á vefnum.
Magdalena segir að vel sé hægt að upplifa fullnægingu í öllum líkamanum án sáðláts, jafnvel raðfullnægingar. Þetta eigi bæði við um konur og karla. Aðspurð hvort margir starfi hjá Tantrahofinu segir hún: „Nei, ekki miðað það sem tíðkast til dæmis í Danmörku. Við erum auðvitað á Íslandi en í Danmörku er fólk mun opnara gagnvart þessari starfsemi. Þetta er auðvitað ekki fyrir alla.“
„Þetta er fullt af fegurð og ást en ekki kynferðislegt.“
Fegurð og ást en ekki kynferðislegt
Magdalena segir marga halda að um kynlífsþjónustu sé að ræða, en svo sé hins vegar ekki. „Þetta er fullt af fegurð og ást en ekki kynferðislegt. Við kennum tantra og jóga, pör geta komið og lært hjá okkur og beitt tækninni í eigin tilhugalífi.“
Magdalena segir tryggt að nuddið leiði ekki til sáðláts fyrir mistök. „Nei, það gerist ekki. Hér vinnur fólk sem er mjög fært,“ svarar hún og bætir við: „Þegar menn fá sáðlát missa þeir þann kraft sem hefur magnst upp, og hver væri tilgangurinn í því?“
Holdris heimilt
Magdalena segir að það sé ekkert tiltökumál þótt menn fái holdris meðan á þjónustunni stendur. Hins vegar séu kynfærasvæði aldrei snert. „Það er reynsla okkar að það er ekki fyrr en að sá sem stundar tantrísk fræði hefur sannað sig og hefur uppgötvað erótíska möguleika sína að hann er tilbúin til að upplifa lingam nudd,“ segir á vef nuddstofunnar.
Aðspurð hvort margir komi og haldi að um vændisþjónustu sé að ræða segir Magdalena að slíkt sé ekki algengt. Auk þess hafi aldrei nein vandamál komið upp. Flestir komi, fái kynningu og fræðslu og sjái þá að ekki er um vændi að ræða. „Fyrir okkur snýst þetta ekki um peningaplokk heldur að kynna til sögunnar þessa tækni, þessa speki. Þetta er lífstíll okkar,“ segir hún.
„Þetta er mjög náið og erótískt, en samt ekki kynlífsþjónusta.“
„Nuddar með brjóstunum“
Þegar mögulegur kúnni hringdi í Tantrahofið var eftirfarandi lýsing gefin á starfseminni: „Tantranudd er slakandi nudd, erótískt og náið. Við nuddum allan líkamann nema kynfærin. Við nuddum ekki bara með höndum, heldur líka hári, lærum og brjóstum. Þetta er mjög náið og erótískt, en samt ekki kynlífsþjónusta. Við snertum ekki kynfærin og það er aldrei sáðlát. Það er hægt að fá fullnægingu í öllum líkamanum án sáðláts. Í tantra lærum við að skilja að fullnægingu og sáðlát.“ Þá kom fram að kúnninn væri nakinn en nuddarinn í g-streng einum klæða. „Hún er næstum nakin og nuddar með brjóstum.“
Samkvæmt svörum nuddþjónustunnar er um hóp nuddara að ræða. „Það er ekki hægt að velja. Við erum hópur af konum sem erum að nudda, en það er ekki hægt að velja. Allar eru mjög góðar í því sem þær gera.“
Þjónustan kostar 27 þúsund
Tantrahofið er til húsa í einbýlishúfi í Grafarholti. Þjónustan kostar 27 þúsund krónur og getur tekið allt að tvo tíma. „Þetta getur kannski tekið tvo tíma ef þú vilt fara í sturtu fyrir og eftir nuddið og þú færð vatn og ávexti eftir nuddið,“ segir starfsmaðurinn. Þá er boðið upp á fjögurra handa nudd á 45 þúsund krónur.
Viðskiptablaðið fjallaði um hagnað Tantrahofsins fyrr í dag, en félagið skilaði ársreikningi á dögunum. Um er að ræða sjálfseignarstofnun sem skilaði 265 þúsund króna hagnaði á síðasta ári. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins var tap á Tantrahofinu í fyrra um 98 þúsund krónur en tekjur af sölu á vöru og þjónustu námu 7,2 milljónum króna. Þetta eru 264 nuddlotur sé miðað við að hvert nudd sé tveggja handa nudd. Viðskiptablaðið greinir frá að eignir félagsins hafi numið 1,7 milljónum króna meðan skuldir voru 1,1 milljón króna og eigið fé var 650 þúsund krónur.
Hér fyrir neðan má sjá myndband frá dönsku útibúi Tantrahofsins.
Athugasemdir