Nær tveir mánuðir eru liðnir frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við völdum. Í stjórnarsáttmála hennar voru heilbrigðismál sett í forgang. Það eru því miklar væntingar gerðar til nýs heilbrigðisráðherra, Óttars Proppé, sem tekur hlýlega á móti blaðamönnum og ljósmyndara Stundarinnar í höfuðstöðvum velferðarráðuneytisins í Skógarhlíð. Tómleg skrifstofan hans ber það þó með sér að hann er enn að koma sér fyrir, líkast til líka enn að máta sig við nýtt hlutverk og komast inn í þann víðfeðma og mikilvæga málaflokk sem hann er nú yfir og allir landsmenn hafa skoðun á. Veggirnir eru hvítmálaðir og tómir. Eitt af einfaldari verkefnunum á löngum lista ráðherrans er einmitt að breyta því. Hann þarf að velja sér málverk á veggina en segist ekki enn búinn að ákveða hvaða verk eða eftir hvaða listamenn hann vilji raða í kringum sig. Aðalkrafan sem hann setji sé að listaverkin séu litrík.
Fyrsta spurningin sem Óttarr fær er hvort það sé orðið ljóst hvert verði hans fyrsta stjórnarfrumvarp. Hann segir það enn óljóst en telur líklegt að það verði annaðhvort frumvarp gegn misnotkun stera eða frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir að því er lýtur að rafsígarettum og regluverki um þær. Hann segir ýmis verkefni hafa verið í biðstöðu í ráðuneytinu seinni part síðasta árs vegna pólitískrar óvissu og langrar stjórnarkreppu. Fyrstu dagarnir hafi því farið í verkefni sem „biðu á hurðinni“ þegar Óttarr settist í stól heilbrigðisráðherra.
„Ríkisstjórnin er stofnuð á þessum skrýtna tíma á árinu. Nú erum við í miklu kapphlaupi í undirbúningi fimm ára fjármálaáætlunar og allt ráðuneytið og allar stofnanir eru á fullu að undirbúa það, svo hægt sé að leggja það fram fyrir 1. apríl, eins og er gert ráð fyrir í lögum. Þetta gerir það að verkum kannski að maður er ennþá að bregðast við stöðunni í ráðuneytinu, frekar en að koma hér inn alveg á milljón sem gerandi,“ segir hann.
Athugasemdir