Þótt fjöldi dæma séu um að vörur í Costco séu mun ódýrari en í öðrum íslenskum verslunum, sérstaklega ef þær eru keyptar í magni, eru sumar vörurnar dýrari. Það gildir jafnvel þótt keypt sé í stórum pakkningum.
Verslunin hefur slegið í gegn og hefur fólk beðið í löngum röðum til að komast inn í hana, auk þess sem nágrannar hafa kvartað undan umferðartöfum.
Facebook-hópur viðskiptavina Costco - „Keypt í Costco - myndir og verð“ - er orðinn einn sá fjölmennasti á Íslandi, með 52 þúsund meðlimi.
Gríðarleg ánægja með Costco
Í Facebook-hópnum hefur verið bent á fjölda dæma um vörur sem kosta meira í öðrum verslunum á Íslandi. Viðskiptavinir hafa játað ást sína gagnvart versluninni og greint frá því að þeir líti á hana sem vin sinn. „Ef það væri hægt að vera í ástarsambandi með verslun þá væri það Costco hjá mér,“ segir einn viðskiptavinurinn í hópnum. „Vinir mínir sviku mig ítrekað. Ég eignaðist nýjan vin. Hann heitir Costco,“ segir annar viðskiptavinur.
Í hópnum hefur komið upp misskilningur um vöruverð, þar sem margir gera ráð fyrir því að allt sé á lægsta verði í Costco. Þannig hvatti viðskiptavinur verslunarinnar aðra til þess að kaupa nautahakk í rúmlega 2,5 kílóa skömmtum, sem þar er selt.
„2,5 kg af nautahakki á 1800. Kíló út úr annarri búð 1600. Um að gera að ná sér í það,“ sagði kona í hópnum.
Hún var hins vegar leiðrétt, þar sem um er að ræða kílóverð, en ekki verð fyrir þá stóru pakkningu sem Costco selur. Viðskiptavinurinn átti erfitt með að trúa því að Costco hefði töluvert hærra verð en aðrar verslanir. „Ertu viss? Það passar ekki. Þá væri kíló mun dýrara en úr venjulegri búð.“
Erfitt að fá upplýsingar um verð
Stundin hafði samband við Costco til að spyrja út í verðið á nautahakki í gær. Starfsmaður verslunarinnar neitaði hins vegar að gefa upp verðið. „Ég get ekki svarað því,“ sagði starfsmaður Costco, sem svaraði í síma.
Blaðamaður: „Þetta er númerið hjá ykkur, á já.is, er ekki hægt að hringja í ykkur og komast að því hvað vörur kosta?“
Starfsmaður: „Nei. Það er ekki hægt. Bara koma í búðina.“
Blaðamaður: „Má ég koma inn í búðina ef ég er ekki með meðlimakort?“
Starfsmaður: „Nei.“
Blaðamaður: „Ég er að hringja frá fjölmiðli. Eruð þið með upplýsingafulltrúa eða eitthvað slíkt sem getur svarað spurningum um hvað vörur kosta?“
Starfsmaður: „Augnablik.“
Gefið var samband við markaðsstjóra Costco. Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir, sem gegnir stöðunni, vildi ekki gefa upp verðið á nautahakki.
Markaðsstjóri: „Við getum ekki gefið það upp svona í gegnum síma. En þú verður bara að kíkja í heimsókn til okkar.“
Blaðamaður: „En ég má ekki koma í búðina nema ég sé með meðlimakort.“
Markaðsstjóri: „Ertu að segja mér að þú viljir ekki vera meðlimur?“
Blaðamaður: „Ég er bara ekki meðlimur.“
Markaðsstjóri: „Það er skandall.“
Blaðamaður: „En það sem við erum að gera, er að fjalla um verðlag, og verðlag í Costco. Yfirleitt hefur maður getað hringt í verslanir ...“
Markaðsstjóri: „Það besta sem ég get gert fyrir þig er að láta þig fá tölvupóstinn hjá framkvæmdastjóranum okkar. Þú getur sent spurningar á hann.“
Blaðamaður: „Já, þannig að þið gefið ekkert upp verð í búðinni?“
Markaðsstjóri: „Við erum ekki að gera það núna.“
Brett Vigelskas, framkvæmdastjóri Costco, svaraði ekki tölvupóstum í gær með spurningu um verðlag á kjöthakki og innihaldi þess.
Kjöthakkið dýrara í Costco
Fram hefur hins vegar komið í máli og myndum viðskiptavina Costco að þeir hafi greitt 1.899 krónur fyrir kílóið af nautahakki.
Þegar haft var samband við Bónus kom fram að verð þar er 1.798 krónur fyrir 100% ungnautahakk frá Íslandsnauti. Ungnautahakk fæst einnig á 1.798 krónur í matvöruverslun Nettó. Nautgripahakk er hins vegar á töluvert lægra verði en ungnautahakk, sem og fryst nautahakk.
Kjöthakkið í Costco er einnig íslenskt, samkvæmt upplýsingum sem hafa komið fram í Facebook-hópi um kaup á vörum í Costco.
4,5 kílóa Toblerone lækkað um 70 prósent
Athygli vakti meðal viðskiptavina Costco í gær að ein vara fyrirtækisins, 80 sentímetra langt Toblerone súkkulaði, var lækkað í verði um 70 prósent. Súkkulaðið fæst nú á 3.000 krónur, en var verðlagt á 10 þúsund krónur í upphafi. Stykkið vegur um 4,5 kílógrömm, eða líkt og þéttvaxinn hvítvoðungur. Mikil ánægja skapaðist meðal viðskiptavina Costco vegna lækkunarinnar og birtir einn meðlima hópsins mynd af sér faðmandi súkkulaðistykkið með textanum „The love of my life“.
Miðað við kaloríufjölda nægir 4,5 kílógramma Toblerone-stykki meðalmanneskjunni til orkubrennslu í 12 daga, borði hún ekkert annað. Hver hundrað grömm af Toblerone gefa 534 kaloríur, en kaloríuþörf meðalmanneskju er rúmlega 2000 á sólarhring.
Þetta jafngildir því að 100 gramma stykki af Toblerone kostaði 67 krónur, en 222 krónur fyrir lækkunina. Einn viðskiptavinur Costco sá sér leik á borði og keypti súkkulaðistykkið til þess að veita gestum í brúðkaupi sínu í sumar.
Athugasemdir