Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum og gögnum frá háskólaráði vegna meints vanhæfis rektors Háskóla Íslands til að fjalla um mál tengd rektorskjöri.
Einar Steingrímsson rektorsframbjóðandi sendi Umboðsmanni Alþingis kvörtun þann 15. mars þar sem hann gerði ýmsar athugasemdir við málsmeðferð háskólaráðs og rektors í tengslum við rektorskjörið sem fram fer þann 13. apríl. Áður hafði Einar, án árangurs, farið fram á að Kristín Ingólfsdóttir rektor viki sæti á grundvelli 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga þegar háskólaráð fjallaði um erindi hans og undirbúning rektorskjörs.
Í kvörtun Einars til Umboðsmanns kemur fram að hann telji rektor vanhæfan til að fjalla um þetta tiltekna mál í ljósi þess að „einn þeirra sem lýst höfðu yfir framboði til rektors (og sem síðar var úrskurðaður embættisgengur) hefur árum saman verið aðstoðarrektor skólans, valinn af núverandi rektor, og þar með einn af nánustu samstarfsmönnum rektors“. Hér er vísað til Jóns Atla Benediktssonar prófessors.
Athugasemdir