Maður um þrítugt fannst látinn að morgni laugardags í lúxusíbúð í Salahverfinu í Kópavogi. Maðurinn var hluti af vinahópi sem hafði leigt húsið vegna afmælisfögnuðar á Íslandi. Andlát hans varð ljóst þegar leiðsögumaður kom að sækja hópinn um morguninn, en hann sýndi engin viðbrögð þegar reynt var að vekja hann.
„Þau voru auðvitað bara í áfalli,“ segir eigandi húsnæðisins í samtali við Stundina. „Þau hringdu í mig til að láta mig vita hvað hefði gerst. Þetta var mikið áfall og þau sögðust ætla að taka næstu flugvél heim.“
Maðurinn er bandarískur, eins og sá sem bókaði íbúðina á Airbnb, en hópurinn kom til Íslands frá Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar, þar sem Ísland þótti vera miðlægur fundarstaður.
Gestgjafinn hefur takmarkaðar upplýsingar um það sem gerðist og hefur ekki rætt við lögreglu. „Hann varð bráðkvaddur. Ég veit bara að þeim var veitt áfallahjálp. Ég hef sent samúðarkveðjur, og þau sendu til baka „takk fyrir“ og fóru á hótel. Þau gátu ekki hugsað sér að gista þarna aftur. Ég hitti þau aldrei eftir þetta. Ég bara kom að þarna löngu seinna, þegar lögreglan var búin að ganga frá öllum hlutum. Það fannst mér rosalega flott hjá lögreglunni að þau voru færð strax í áfallahjálp. Ég er sjálf nýbúin að upplifa svona erlendis, svona skyndidauða, og þar var engin aðstoð, ekki neitt.“
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki sé grunur um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. „Það eru öll mannslát rannsökuð, en hvort það sé eitthvað voveiflegan atburð að ræða er annað mál. Hann hafði verið á ferð með hópi manna. Málið er í eðlilegum farvegi hvað varðar rannsókn. Það er allt skoðað í svona málum.“
Athugasemdir