Endurupptökunefnd Guðmundar- og Geirfinnsmálsins hefur ákveðið að heimila að mál Sævars Ciesielskis og Tryggva Rúnars Leifssonar verði tekin upp á ný og dæmt aftur í máli þeirra.
Sævar sat í gæsluvarðhaldi í 1.533 daga og þurfti að dúsa í einangrun í fangelsi í 615 daga. Hann lést árið 2011 án þess að telja sig hafa náð fram réttlæti í máli sínu. Hann var yfirheyrður í samtals 340 klukkustundir og játaði að lokum sekt vegna dauða Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar, sem hurfu annars vegar 19. nóvember 1974 og hins vegar 25. janúar 1974. Sævar hefur sagt frá því að hann hafi verið beittur harðræði.
Tryggvi Rúnar sat í varðhaldi í 1.532 daga og þar af einangrun í 655 daga, eða tæp tvö ár.
Tryggvi Rúnar var dæmdur í þrettán ára fangelsi og Sævar sautján ára fangelsi.
Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur hefur metið játningar í Geirfinnsmálinu sem falskar, að þar hafi sakborningar játað á sig atburðarrás sem þeir hafa ekki sjálfstætt minni um, heldur hafi þeim verið innrættar sögur í yfirheyrslum.
Sævari var synjað um endurupptöku árið 1996.
Tryggvi lést árið 2009. Úrskurðir endurupptökunefndar verða birtir í dag.
Fangaverðir kölluðu Sævar illum nöfnum
Heimildir sýna fram á afar neikvætt viðhorf fangavarða gagnvart Sævari Ciesielski. Hann var meðal annars kallaður „helvítið“, „dýrið“ og „skoffínið“ af fangavörðum í dagbók Síðumúlafangelsisins, þar sem hann var fangelsaður. Þá skrifaði fangavörður í dagbókarfærslu sumarið 1976 um að hann teldi umkvartandir Sævars um hjartveiki vera ómarktækar: „Er það mitt mat, og jafnvel annarra, að ekkert hjarta sé í Sævari Marinó Ciesielski.“
Athugasemdir