Það voru hlutir sem urðu til þess að ég komst af stað,“ segir dýralæknirinn Sif Traustadóttir Rossi, þar sem hún dvelur í húsbíl í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, farin frá Íslandi í bili.
Sif fór fyrir nokkrum vikum til Þýskalands og keypti sér húsbíl. Hún ætlar að búa í bílnum í minnst sjö mánuði og ferðast um Evrópu. Það hafði lengi verið draumur hennar að skilja við hversdagslífið og leggja upp í langferð, svo lengi að útlit var fyrir að hann rættist ekki. Síðan kom atburðurinn sem kastaði henni út úr þægindarammanum.
„Ég var að fara í skíðaferðalag norður í land. Við vorum í bíl. Ég var farþegi í honum. Það var hálka á veginum. Bíllinn byrjaði skyndilega að rása. Svo sá ég að það var gámaflutningabíll að koma á fullri ferð á móti okkur. Ég hugsaði: Nú mun ég bara deyja.“
„Ég hugsaði: Nú mun ég bara deyja.“
Hugljómun um lífið
Það varð Sif líklega til lífs að bíllinn rásaði lengra og fór út af veginum undan gámaflutningabílnum. „Við vorum svo heppin að það var snjóskafl akkurat þar sem við fórum út af. Við vorum öll lifandi og allir voru óbrotnir. En ég skallaði upp undir loftið á bílnum þegar bíllinn valt og ég fékk hnykkskaða á hálsinn og bakið.“
Bílslysið reyndist á tvíþættan hátt vera orsakavaldur þess að Sif býr nú í húsbíl, óviss um hvað verður á vegi hennar næsta hálfa árið.
„Í raun og veru má segja að þetta bílslys hafi haft áhrif á það að ég ákvað að láta af þessu verða. Eftir þetta slys hugsaði ég mikið um það hvernig maður gengur í gegnum lífið, setur undir sig hornin og þjösnast áfram. Reynir að komast í gegnum þetta, án þess að gera eitthvað sem skiptir raunverulega máli. Þegar þetta gerðist fékk ég bara þessa hugljómun, að maður á ekki að bíða eftir því að komast á eftirlaun,“ útskýrir Sif.
Önnur hliðaráhrif, sem ýttu henni út í ferðina, voru að hún fékk tryggingabætur vegna slyssins. „Það hefur alltaf heillað mig að ferðast. Mig langaði til að taka mér lengra frí. Það er nokkuð sem ég hef hugsað um í mörg ár.“
Skömmu eftir bílslysið varð atburður sem undirstrikaði að hún yrði að fara. „Eitt af því sem hefur rekið mig af stað er að það eru miklir arfgengir hjartasjúkdómar í móðurfjölskyldunni minni, sérstaklega kransæðasjúkdómar. Þremur mánuðum eftir að ég lenti í bílslysinu þurfti mamma mín að fara í fjórfalda hjáveituaðgerð og var heppin að vera ekki búin að fá hjartaáfall þegar þetta uppgötvaðist, þrátt fyrir að hafa aldrei
Athugasemdir