Hugmyndafræði sem gengur út á að einstaklingar geti verið feitir og heilbrigðir á sama tíma hefur rutt sér til rúms á síðustu árum. Hér á landi er búið að stofna Facebook-síðuna Heilsa óháð þyngd, sem „samfélag einstaklinga sem vilja viðhalda heilsu, hamingju og heilbrigði til lengri tíma, án þess að fara í megrun eða nota skyndilausnir“. Hugmyndafræði þeirrar síðu byggir meðal annars á erlendri stefnu, Health at Every Size, sem nýtur sívaxandi fylgis meðal þeirra sem kenna sig við líkamsvirðingu.
Stefnan gengur út á að fólk eigi að bera virðingu fyrir líkama sínum óháð líkamsvexti og því haldið fram að líkamsvöxtur einn og sér færi hvorki heilsu né hamingju. Því er haldið fram að þegar ekki er litið á töluna á vigtinni sem eina mælikvarðann á heilsu sé hægt að styðja alla til að bæta heilsuna með heilbrigðari lífstíl. Markmið hreyfingarinnar virðist í fljótu bragði vera af hinu góða, að draga úr sjálfshatri, átröskunum, mismunun og heilsubresti.
Íslendingar eru á meðal feitustu þjóða heims og sú feitasta í Vestur-Evrópu samkvæmt rannsókn frá árinu 2014 sem birtist í The Lancet. Samkvæmt rannsókninni eru 74 prósent karla og 61 prósent kvenna hér á landi í yfirþyngd eða offitu. Í skýrslu OECD frá árinu 2014 um heilbrigðistölfræði hér á landi er sérstaklega varað við umtalsverði fjölgun Íslendinga sem þjáist af offitu. Árið 2002 þjáðist 12 prósent þjóðarinnar af offitu en árið 2010 var talan komin upp í 21 prósent. Samkvæmt skýrslunni er þetta mesti áhættuflokkur íslensks heilbrigðiskerfis þar sem offita leiðir til hjartasjúkdóma og sykursýki með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið.
Unnið gegn fordómum
Á meðal þeirra lækna sem Stundin ræddi við er Björn Geir Leifsson, skurðlæknir, með meistargráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu auk þess sem hann er með sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Björn Geir bendir á að málið sé ekki einfalt, á því séu margar hliðar, en sú nálgun að fólk geti verið við góða heilsu óháð þyngd sé varasöm einföldun. „Ég hef rætt við fólk sem er með nánast trúarlegan hita í skoðunum sínum á þessu og sér ekki hætturnar vegna þess að þau einblína á fordómana og fyrirlitninguna sem feitu fólki er sýnd,“ segir Björn Geir í skriflegu svari til Stundarinnar.
Hann segir að þessi nálgun sé að hluta til mjög þörf en fari oft út í varsama einföldun. „Þarna er unnið þarflega gegn fordómum, mismunun og alhæfingum. En um leið er ekki horfst nógu vel í augu við áhætturnar sem fylgja því að hafa ekki hemil á þyngdinni. Þarna er réttilega varað við megrunarkúrahegðun en er nógu mikil áhersla á lífsstílsbætur og atferlisleiðréttingar sem þetta fólk þarf til þess að hafa hemil á viktinni?“
Athugasemdir