Áhrifamenn úr læknastétt hafa undanfarnar vikur gagnrýnt stjórnarmeirihlutann á Alþingi harðlega fyrir að vanrækja heilbrigðiskerfið og háskólastigið á Íslandi. Er þá sérstaklega vísað til ríkisfjármálaáætlunar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til næstu fimm ára þar sem útgjöldum til heilbrigðismála og menntamála er skorinn þröngur stakkur og þak sett á útgjaldaaukingu til málaflokkanna.
Þá hafa félög lækna, læknanema og hjúkrunarfræðinema gert alvarlegar athugasemdir við námslánafrumvarp Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra sem þau telja að grafi undan hagsmunum þeirra sem vilja starfa í heilbrigðisgeiranum í framtíðinni.
„Ég er að safna liði sem mun fylgjast grannt með því hvernig núverandi stjórnarflokkar sinna heilbrigðiskerfinu fyrir kosningar. Ef þið gerið ekki raunverulegt átak, sem ætti að vera auðvelt fyrir ykkur vegna þess að fjárhirslur ríkisins eru að springa af peningum og meiri uppgangur í efnahagslífi þjóðarinnar en í nokkurn annan tíma, þá munum við gera allt sem við getum til þess að sannfæra kjósendur um að hunsa ykkur.“
Þetta skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í harðorðum pistli sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. „Það er nefnilega ekki líklegt að þeir sem treysta sér ekki til að setja fé í heilbrigðiskerfið rétt fyrir kosningar, þegar þeir gætu nýtt sér það til þess að sækja atkvæði, muni gera það að kosningum loknum,“ skrifar Kári og bætir við: „Við munum einnig gera okkar besta til þess að sjá til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir heiti stuðningi við heilbrigðiskerfið á þann hátt að það verði ekki auðveldlega svikið. Við fylgjumst með því hvernig haldið er utan um velferðarkerfið í heild sinni, bæði það sem er á ábyrgð ríkis og bæjar og svo stöndum við vaktina að kosningum loknum.“
„Ætti að verða til þess að engin
undir þrítugu kjósi slíka flokka“
Í grein sem Kári skrifaði skömmu áður benti hann á að nýlega hefði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hlotið samþykki. „Sú áætlun gengur þvert á yfirlýstan vilja hans til þess að hlúa að þeim sem minna mega sín, styrkja velferðarkerfið og þá sérstaklega að bæta heilbrigðiskerfið,“ sagði Kári. Eins og Stundin hefur áður fjallað um stendur til, samkvæmt áætluninni, að hækka framlög til heilbrigðismála upp í tæplega 200 milljarða á ári, eða um 18 prósent að raunvirði yfir fimm ára tímabil. Þótt hækkunin sé veruleg er hún mjög fjarri því að koma til móts við þá kröfu sem hátt í 90 þúsund landsmenn hafa gert með undirskrift sinni. Munu útgjöld ríkisins til heilbrigðismála nema rúmum 8 prósentum af vergri landsframleiðslu árið 2021 ef áætlunin gengur eftir.
Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar Háskóla Íslands, tjáði sig nýlega um ríkisfjármálaáætlunina á Facebook og gerði einkum athugasemdir við það hve litlum fjármunum verður varið til háskólastigsins næstu árin. „Það er algerlega óviðunandi að ríkisstjórn sem loks sér fram á betri tíma eftir áratugs aðhald skuli ákveða viljandi að svelta háskóla landsins. Öll nágrannaríki vita að fjárfesting í háskólum og vísindastarfi er forsenda blómlegs atvinnulífs og eina leiðin til að halda ungu og metnaðarfullu fólki til framtíðar. Þetta eru svik við marggefin loforð og ætti að verða til þess að enginn undir þrítugu kjósi slíka flokka, ósköp einfalt,“ skrifaði hann. Þannig tók hann undir gagnrýni sem rektorar allra háskóla á Íslandi settu fram í harðorðri yfirlýsingu fyrr í sumar.
Læknar í sérfræðinámi séu sviptir réttinum
til frestunar á endurgreiðslu námslána
Frumvarp Illuga Gunnarssonar til laga um námslán og námsstyrki er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd þessa dagana. Fréttastofa RÚV hafði eftir Líneik Önnu Sævarsdóttur, framsögumanni nefndarinnar í dag að stefnt væri að því að frumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni þannig að það geti orðið að lögum fyrir þinglok. Á meðal þeirra sem lagt hafa fram umsagnir um frumvarpið eru Læknafélag Íslands, Félag læknanema, Félag íslenskra læknanema í Ungverjalandi og Curator, nemendafélag hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands.
Athugasemdir