Kristján Skúli Ásgeirsson, brjóstaskurðlæknir og eigandi Brjóstamiðstöðvarinnar sem fyrirhugað er að starfi í Klíníkinni í Ármúla, segir að sérhæfð brjóstamiðstöð sé það umhverfi sem flestir erlendir sérfræðingar vinna í og því sé slík stofnun forsenda þess að fá fleiri brjóstaskurðlækna til að flytja heim og starfa á Íslandi. Stundin fjallaði ítarlega um fyrirhugaða brjóstamiðstöð í síðasta tölublaði. Kristján Skúli, sem er þriðjungseigandi í Klíníkinni í Ármúla, skrifar grein í Fréttablaðið í dag í þeim tilgangi að leiðrétta „nokkrar alvarlegar rangfærslur“ sem slegið hafi verið fram um stofnun sérhæfðrar brjóstamiðstöðvar á Íslandi. Hann tilgreinir hins vegar ekki hver það var sem sló rangfærslunum fram.
Svikinn af Landspítalanum
Kristján Skúli segir að upphaflega hafi staðið til opna sérhæfða brjóstamiðstöð á Landspítalanum en þær áætlanir hafi orðið að engu. Þær breytingar sem hafi átt sér stað í þjónustunni hafi byggst á dæmalausri vinnu, launaðri og ólaunaðri, en ekki framkvæmd á stefnu spítalans í málaflokknum. Hann segist sjálfur hafa aflað talsverðra sértekna fyrir Landspítalann, meðal annars með því að fá fjölda færeyskra sjúklinga í aðgerðir á Landspítalann. „Ég fékk vilyrði fyrir því að hluta af sértekjunum sem ég aflaði fyrir spítalann yrði varið í tækjakaup fyrir þessar sérhæfðu brjóstaaðgerðir en raunin varð önnur. Sértekjurnar voru notaðar í tækjakaup fyrir aðra starfsemi spítalans,“ skrifar hann.
Þegar Kristjáni Skúla varð ljóst að Landspítalinn ætlaði ekki að setja sérstakt fjármagn í stofnun sérhæfðrar brjóstamiðstöðvar hafi hann ákveðið að stofna Brjóstamiðstöðina í samstarfi við sérhæfðan brjóstaröntgenlækni frá Færeyjum. „Við tveir erum þeir einu sem eigum og komum að rekstri Brjóstamiðstöðvarinnar sem fyrirhugað er að starfi í Klíníkinni Ármúla. Engir fjárfestar koma þar að máli.“
Lífeyrissjóðir ætluðu að leggja til 210 milljónir
Eins og áður segir er ítarlega fjallað um fyrirætlanir Kristjáns Skúla í síðasta tölublaði Stundarinnar. Vitnað er í bréf sem Kristján Skúli sendi Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra, í október á síðasta ári. Í bréfinu segir Kristján Skúli meðal annars að lífeyrissjóðirnir hafi ætlað að leggja fyrirtæki Kristjáns til 210 milljónir króna til tækjakaupa umfram það fjármagn sem lagt hafði verið í uppbyggingu húsnæðisins að Ármúla 9. „Brjóstamiðstöðin ehf. þarf ekki að ráðast í neinn stofnkostnað því húsnæðið, framkvæmdir og tækjakaup er nú þegar fjármagnað og verður greitt til baka í samræmi við nýtingu. Húsnæðið sjálft er byggt upp af EVU Consortium ehf. sem leigir út rými fyrir læknisþjónustu og samkomulag er við EVU um að húsnæðið verði sérhannað fyrir Brjóstamiðstöð að því gefnu að sem fyrst liggi fyrir staðfesting á því að unnt sé að hrinda starfseminni af stað vorið 2015. Jafnframt hefur Kjölfesta fjárfestingarsjóður sem er í eigu 12 lífeyrissjóða tekið til hliðar hlutafjárloforð sem nemur um 210 m.kr. sem unnt er að nýta í tækjakaup fyrir Brjóstamiðstöð.“
Þá fer Kristján Skúli einnig fram á að miðstöðin fái fjármuni frá ríkinu til að framkvæma aðgerðirnar á Brjóstamiðstöðinni. „Tvær leiðir eru helst færar til þess.
Athugasemdir