Fyrirtækin tvö sem sem keyptu ríkisfyrirtækið Íslenska aðalverktaka (ÍAV) árið 2003, í umdeildri einkavæðingu sem Hæstiréttur Íslands telur gallaða, hafa aldrei skilað ársreikningi og getur embætti Ríkisskattstjóra ekkert gert til að knýja þau til þess. Eina úrræði Ríkisskattstjóra er að sekta fyrirtæki sem skila ekki ársreikningnum en sektin nemur 250 þúsund krónum á ári. Þetta kemur fram í svari frá embætti Ríkisskattstjóra við fyrirspurn Stundarinnar um ársreikningaskil fyrirtækjanna tveggja, Eignarhaldsfélagsins AV ehf. og Eignarhaldsfélagsins Gás ehf. Ríkisskattstjóri getur hins vegar ekki gefið upp hversu háar sektir einstaka fyrirtæki hafa greitt vegna vanskila á ársreikningnum: „Ríkisskattstjóri gefur ekki upp sektir á einstök félög.“
Miðað við svör Skúla Jónssonar hjá embætti Ríkisskattstjóra gætu sektargreiðslurnar hins vegar numið nokkrum milljónum króna. „Heimild til beitingu sektar vegna vanskila ársreikninga var lögfest 2006 og reglugerð sett 2008. Fyrstu sektir voru lagðar á félög, þó aðeins lítinn hluta þeirra, á árinu 2009 vegna reikningsársins 2007. Í maí 2011 voru öll félög í vanskilum sektuð og hefur svo verið á hverju ári síðan. Sektarfjárhæð hefur verið kr. 250.000 öll árin. Þó er ekki heimilt að sekta stærstu félögin heldur er þeim málum vísað til skattrannsóknarstjóra.“
Forstjórinn einn þeirra sem keypti
Fyrirtækið sem keypti 40 prósenta hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum var Eignarhaldsfélagið AV ehf. og var það í eigu Gás ehf. Kaupverðið var um tveir milljarðar króna.
Athugasemdir