Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Karlmenn verða fyrir misrétti: „Dó konan þín?“

Feðra­veld­ið eða kynja­kerf­ið skað­legt bæði körl­um og kon­um, seg­ir lektor í kynja­fræði. Dæmi um að feð­ur segi son­um sín­um að strák­ar eigi ekki að faðma pabba sinn.

Karlmenn verða fyrir misrétti: „Dó konan þín?“
Er hann perri? Svavar Knútur segist finna fyrir því að fólk haldi að hann sé perri ef hann heilsar upp á börn og leikur við þau. Mynd: Pressphotos

Undanfarna daga hefur Twitter-byltingin um hversdagslegt kynjamisrétti, þar sem myllumerkið #6dagsleikinn er notað, vakið athygli. Fjölmargir hafa sagt frá reynslu sinni á samskiptamiðlinum, karlar jafnt sem konur. Eitt af því sem byltingin hefur opinberað er kynjamisréttið sem karlmenn finna á eigin skinni.

Gyða Margrét Pétursdóttir
Gyða Margrét Pétursdóttir

„Femínísk barátta snýst um að breyta samfélaginu. Oft er þessi orðræða í gangi að femínismi sé bara fyrir konur, en feðraveldið eða kynjakerfið, hvað sem við köllum það, er takmarkandi bæði fyrir konur og karla,“ segir Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði, í samtali við Stundina. „Þetta kerfi er skaðlegt bæði körlum og konum. Það bindur okkur á klafa þessara kynhlutverka og kemur í veg fyrir að við fáum notið okkar á eigin forsendum.“

Uppeldishlutverkið: „Á þetta barn ekki mömmu?“

Margir tjá sig um ólíkar kröfur sem gerðar eru til kynjanna hvað varðar uppeldi barna. Karlmenn séu til dæmis spurðir hvað þeir ætli eiginlega að gera í fæðingarorlofinu. Gyða segir samfélagið ekki ætlast til þess að karlar sinni börnum sínum með sama hætti og hjá konum. Það birtist til dæmis á almenningssalernum þar sem ekki er höfð aðstaða fyrir feður til þess að skipta á ungabörnum, en sú aðstaða sé hins vegar á kvennaklósettum. „Það er hins vegar ekki algilt,“ segir Gyða. „Víða hefur orðið vitundarvakning varðandi það.“

Annað dæmi sem Gyða nefnir varðandi ólík uppeldishlutverk kynjanna er úr skólakerfinu, en þar er gjarnan hringt frekar í mömmurnar heldur en pabbana ef það þarf að ná í foreldra. 

Karlmennskan: „Faggi eða stelpa fyrir að æfa leiklist, söng og dans“

Nokkrir karlmenn lýsa því einnig hvaða hlutverkum þeir eigi að gegna og hvaða áhugamál þeir eigi að hafa vegna kyns síns. Þannig segir einn frá því að það sé litið hornauga að kona hans hafi meiri áhuga á verkfærum en hann og annar segist iðulega vera kallaður annað hvort faggi eða stelpa fyrir að æfa leiklist, söng og dans. Þá segist einn fá „skrítin lúkk“ þegar hann er með eyeliner eða varalit á djamminu. „Þetta endurspeglar svo vel þetta kerfi að þegar karlar gera uppreisn, og vilja ekki fara inn í þetta karlmennskuhlutverk eins og samfélagið skilgreinir það, þá eru þeir kvengerðir. Þetta segir svo ótrúlega margt um samfélagið okkar að þegar karlmenn sína einhverja eiginleika sem eru eignaðir konum þá eru þeir um leið komnir í einhverja undirskipaða stöðu.“

Karlmenn virðast ekki hafa eins mikið rými til þess að sýna tilfinningar sínar eins og konur, sýni þeir tilfinningar sínar eru þeir sagðir vera að væla. Gunnar F segir einnig frá því á Twitter að pabbi hans hafi neitað að faðma sig því „strákar eiga ekki að faðma pabba sína!“ 

„Strákar eiga ekki að faðma pabba sína!“ 

„Maður fær náttúrlega sting í hjartað,“ segir Gyða. „Þetta er hluti af þessu að þú eigir alltaf að vera stór og sterkur og ekki láta neinn bilbug á þér finna. Innvígslan inn í karlmennskuhlutverkið snýst svolítið um þetta að vera kaldur tilfinningalega og geta harkað af sér.“

Margir tala um það að karlmenn eigi alltaf að vera til í kynlíf. Þeir megi til dæmis ekki eiga konur sem vini án þess að vilja sofa hjá þeim. „Þetta er mjög skýrt dæmi og tengist þessum hugmyndum um karla. Þeir séu algjörlega óseðjandi kynferðislega og þeim sé nokk sama um allt ef þeir fái að ríða. Þegar kemur að kynlífi þá skipti tilfinningar engu máli. Þetta getur verið mjög hamlandi og gefur mjög skakka mynd af tilfinningalífi karla.“

Kerfið ekki ýtt eins við körlum að mennta sig eins og konum

Hersir Aron Ólafsson birti mynd af kynjahlutföllum innan Háskóla Íslands, en þar hallar verulega á karlmenn. „Þetta hefur einmitt verið útskýrt út frá þessum karlmennsku hugmyndum,“ segir Gyða og bendir á að Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor á menntavísindasviði, hefur einmitt fjallað um það að karlmenn komist frekar áfram á eigin verðleikum og þurfi því ekki að mennta sig. Það sé í rauninni lykillinn að jafnrétti að ef konur afli sér menntunar þá séu þeim allir vegir færir. „Kerfið hefur ekki ýtt eins við körlum að mennta sig eins og konum, heldur fá þeir frekar þau skilaboð að menntun sé bara fyrir kerlingar og þeim séu allir vegir færir út frá eigin verðleikum. En þá er líka svo athyglisvert að skoða hópa atvinnulausra kvenna, því sá hópur sem stækkar hvað mest eru menntaðar konur. Hversu miklu skilar menntun kvenna sér?“ spyr Gyða.

Hún segir mjög slæmt að hlutföllin séu með þessum hætti en bendir jafnframt á að körlum hafi einnig fjölgað í háskóla á undanförnum árum, þó svo að konum hafi fjölgað meira. „En karlar virðast líka hafa meiri aðgang að störfum þar sem ekki er krafist formlegrar menntunar heldur en konur, störfum sem gefa samt sem áður vel í aðra hönd. Hvatinn er því ekki eins mikill að mennta sig,“ segir hún.  

Þurfa að gangast við forréttindum sínum

Áherslan í feminískri baráttu undanfarin ár hefur verið á það hvernig hægt sé að vekja karlmenn til umhugsunar um stöðu sína í samfélaginu. „Ef það er hægt að leiða karlmönnum fyrir sjónir hversu skaðlegt þetta kerfi er þeim líka þá eru þeir kannski tilbúnir til að fara að beita sér fyrir jafnrétti kynjanna. Á sama tíma er gott að hafa í huga að karlmenn njóta ákveðinna forréttinda í þessu kerfi og þeir þurfa að gangast við þessum forréttindum sjálfir. Það er alltaf hollt fyrir forréttindahóp að velta fyrir sér stöðu sinni. Alveg eins og það er hollt fyrir hvíta Íslendinga að velta fyrir sér þeim forréttindum sem felast í því að vera með hvíta húð,“ segir Gyða að lokum. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
1
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár