Íslenska ríkið setur mun minna fjármagn en önnur Evrópulönd að meðaltali í ríkisaðstoð.
Aðeins 0,4 prósent landsframleiðslu Íslands rennur til ríkisaðstoðar, samkvæmt nýrri skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA en sama hlutfall er 2,2 prósent í Lettlandi, 1,23 prósent í Grikklandi og 1,2 prósent í Þýskalandi. Meðaltal Evrópuríkja er 0,6 prósent landsframleiðslu í ríkisaðstoð.
Evrópulönd leggja að meðaltali 0,37 prósent landsframleiðslu í viðskiptalega ríkisaðstoð vegna umhverfisverndar og orkusparnaðar, en Ísland leggur ekkert fé í þann málaflokk samkvæmt skilgreiningu skýrslunnar.
Hins vegar leggur Ísland meira en meðalevrópulandið í rannsóknir og þróun. Um 0,21 prósent af landsframleiðslu Íslands rennur í rannsóknir og þróun, en aðeins um 0,07 prósent að meðaltali í Evrópuríkjum.
Í skýrslunni segir að útgjöld til ríkisaðstoðar á Íslandi hafi aukist um 10,5% á árinu 2015. Helst fólst aukningin í verkefnum á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar, í gegnum Rannsóknarsjóð og Tæknisjóð Rannís.
Eftirlitsstofnun EFTA framfylgir reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð. Í skýrslu nefndarinnar er tekið fram að hún sé almennt bönnuð.„Ríkisaðstoð felst í opinberum stuðningi við viðskiptastarfsemi. Hún getur verið í formi fjárstyrkja, skattaívilnana, hagstæðra lána, ábyrgða eða fjárfestinga sem ekki eru á markaðskjörum. Jöfn samkeppnisstaða fyrirtækja í Evrópu er eitt grundvallaratriði EES-samningsins. Til að koma í veg fyrir að opinberir fjármunir séu notaðir til að viðhalda verndarstefnu er meginreglan sú að ríkisaðstoð er óheimil,“ segir í kynningu á skýrslunni.
Athugasemdir